þriðjudagur, nóvember 25

Heihei!!

Hér kemur æskuminning nr. tvö, njótið!
(Svolítið síðan ég skrifaði þetta)

Í sjónvarpinu er verið að sýna apamynd. Nánar tiltekið Gorillas in the mist, þar segir frá klikkaðri kellíngu sem hangir í skóginum og talar við górillur og tekur af þeim ljósmyndir.

Þá rifjast upp fyrir mér atvik úr æsku minni, þar sem apar koma við sögu. Þannig var, að sem ungur drengur las ég allar þær Tarsanbækur sem ég kom höndum yfir. Þær bækur voru hlaðnar hagnýtum fróðleik um það hvernig komast má af í skóginum og hvaða bardagaaðferðir nýtast best í slagsmálum við hin ýmsu skógardýr, svo eitthvað sé nefnt. Og, síðast en ekki síst: apamál! Í þessum bókum lærði ég undirstöðuatriðin í apamáli, svosem eins og “drepa”, “hvítur”, “svartur” og þar fram eftir götunum. Og auðvitað heitin á hinum ýmsu dýrategundum. Fíllinn er t.d. Tantor, villisvínið Horta og snákurinn Hista, svo fátt eitt sé nefnt.

Jæja, eitt sinn var ég semsagt á ferð með foreldrum mínum og lá leiðin til Hveragerðis. Þar var farið í Michelsen, sem var svolítil vasaútgáfa af Eden. Þar var til dæmis gosbrunnurinn með öllu klinkinu sem margir muna eftir í kvikmyndinni um Jón Odd og Jón Bjarna.

Og aparnir.

Þar voru semsagt alvöru apar, tveir eða þrír í búri, og var ekki lítill fengur fyrir tíu-ellefu ára gamlan gutta að geta: a) slegið um sig með apamáli, og b) spjallað við apakettina í búrinu um daginn og veginn og þannig kynnst lífinu út frá sjónarhóli apa í búri. Ég stillti mér upp fyrir framan búrið og reyndi að koma á augnsambandi við einhvern apanna og þegar ég taldi því náð sagði ég það fyrsta sem mér datt í hug á apamáli: “ka góða!” Fyrir hina fáu sem ekki kunna apamál þýðir það “gefstu upp!” Enginn apanna sýndi nein viðbrögð. Ég ræskti mig og reyndi aftur, “KA GÓÐA!”........ Ekkert. Ég reyndi að sjá merki um breytta hegðun hjá félögunum í búrinu, en varð að sætta mig við að sennilega skildu þeir ekki apamál, einhverra hluta vegna.

Þetta var einkennilegt.
Illur grunur tók að læðast að mér. Var það kannski, kannski hugsanlegt að það væri hugsanlega kannski ekkert sérlega mikið að marka það sem stóð skrifað í Tarsanbókunum? Gat það kannski hugsanlega hugsast að Edgar Rice Burroughs kynni ekki, þegar allt kom til alls, apamál? Var kannski ekkert að marka neitt sem stóð í þessum bókum? Ég varð hálf-dofinn þegar þessi skelfilegu, hugsanlegu sannindi fóru að renna upp fyrir mér.

Ætli það hafi ekki verið um líkt leyti sem ég hætti að lesa Tarsanbækur, og snúa mér alfarið að Lukku-Láka, þar var þó eitthvað raunverulegt á ferðinni!

Free Web Site Counter
FreeLogs.com