miðvikudagur, janúar 21

Og hér kemur hin

Já, nú er teljarinn kominn yfir 1300 og þá fáiði seinni söguna af gamla manninum í verðlaun.

Vessgú!!

Ég hef áður sagt ykkur frá gamla manninum sem orti hið áhrifamikla ljóð um herrana í löndunum. Nú ætla ég að segja ykkur frá því þegar hann fór á tónleika með pönkhljómsveitinni Crass í Laugardalshöll. Öllu heldur ætlar hann sjálfur að segja ykkur frá því. Ég hitti gamla manninn í yfirgefnu bílhræi niður við Slipp. Við tókum tal saman og barst það eðlilega að horfnum tímum.

“Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá og man tímana tvenna. Mér er í fersku minni það þegar ég ásamt vinum mínum gerði mér ferð til borgarinnar á tónleika. Það voru ekki bara einhvurjir tónleikar, heldur meiriháttar menningarsamkoma. Þar var aðalnúmer kvöldsins hljómsveitin Crass, sem gaf sig út fyrir að leika pönkskotna músík. Núnú, við vinirnir fórum með áætlunarbílnum til borgarinnar og komum þangað seinnipart dags. Á leiðinni dreyptum við á límonaði sem við höfðum útvegað okkur fyrir ferðina. Ferðin sóttist vel, enda vegir almennt orðnir nokkuð góðir þegar þetta var. Við vorum að vonum orðnir æði spenntir og vel stemmdir þegar við vorum komnir á staðinn, límonaðið átti þar nokkurn hlut að máli. Í takt við tíðarandann vorum við klæddir í dúnúlpur sem vóru algengar skjólflíkur á þessum tíma. En, bíðum nú við, kann einhver að segja, vóru piltarnir ekki á leið á pönktónleika? Hvað eru þeir að gera í slíkum klæðnaði? Væri ekki nær að vera klæddur í leður og með gaddaólar, eins og pönkstíllinn krafðist?
Hægan, hægan nú, segi ég. Við vorum nú reyndar með gaddaólar, en þar sem við vildum ekki vekja óþarfa athygli alvöru pönkara á því, höfðum við þær innanundir ermunum á dúnúlpunum! Snjallt, ekki satt?” Nú kímdi gamli maðurinn í barminn, greinilega á valdi minninganna.

“Nújæja, þar sem við sátum í Höllinni og innbyrtum pönkmenningu í stórum skömmtum, gerðist nokkuð sem hafði varanleg áhrif á okkur drengina. Að okkur vatt sér vígalegur pönkari í fullum skrúða og hann gerði sér lítið fyrir og kastaði upp, á gólfið fyrir framan okkur. Okkur setti hljóða, við störðum í þögulli andakt á þennan fánabera pönksins, þennan heilaga mann í okkar augum. Hann hélt síðan áfram lóni sínu um salinn, eflaust leitandi að fleiri piltum og stúlkum til að innvígja í söfnuðinn. Fyrst héldum við reyndar að hann væri bara með kveisu, en nú í seinni tíð er ég æ meira sannfærður um það að ofneysla límonaðis hafi þarna átt sök að máli.”

Þarna þagnaði gamli maðurinn, greinilega ofurliði borinn af minningum, enda bar hann greinileg merki þess að hafa sjálfur um dagana átt við límonaðivandamál að stríða.
Hér skildust síðan leiðir.

Hafnarfirði 19. feb. 03

Mundi© Guðmundur Helgason 2003

Þetta c inni í hring hér að ofan er rosa töff!

Free Web Site Counter
FreeLogs.com