föstudagur, desember 24

Harmleikur í Húsasmiðju, þriðji þáttur

Í dag er aðfangadagur. Það er gaman. Og nú fáið þið þriðja hluta jólahrollvekjunnar. Það er gaman. Ég veit ekki hvað ég á að segja næst, bara gleðileg jól öllsömul, eða bæði tvö eða eitthvað.

Við feðgarnir komum svo norður og hittum mömmuna. Seinnipartinn fór fjölskyldan í Húsasmiðjuna, um svipað leyti og baðkarið fór með Konnson frá Hvammstanga, áleiðis suður. Jæjjja, við fundum mann sem fór með okkur inn á skrifstofu til að stofna viðskiptareikning. Þar skrifaði ég nafn, kennitölu, heimili og þess háttar á þartilgert eyðublað. -Og förum við svo bara að versla sisvona? spurði ég í barnaskap mínum. -Ha, neeeei, nú á eftir að fylla út bakhliðina á blaðinu, ertu ekki annars fasteignareigandi? spurði maðurinn á móti.-Nei, hva, þarf þess? -Jáá, þaaað þarf væni minn, eða að fá einhvern fasteignareiganda til þess að skrifa upp á fyrir ykkur.
-HVAÐ?!
–Öðruvísi getið þið ekki stundað reikningsviðskipti hér. –Þurfum við semsagt að fara núna og reyna að finna einhvern fasteignareiganda til að skrifa uppá þetta fyrir okkur, tvöhundruð kílómetra frá okkar heimabyggð? –Jájá, annað er ekki inni í myndinni.

Það voru beygð hjónaleysi sem gengu með litla drenginn sinn út úr Húsasmiðjunni á Akureyri þennan föstudagseftirmiðdag, ekki með glerkubba á baðið, ekki með mósaíkflísar í sturtubotninn, heldur hálfgerða eftirlíkingu af risastóru skuldabréfi frá einhverri meiriháttar fjármálastofnun í hendinni, og nú skyldi reyna að fá einhvern á Akureyri til að leggja fasteignina sína að veði til þess að við gætum skipt á baðkari og flísum, seytján þúsund krónum að andvirði.

Víkur nú sögunni suður.Morguninn eftir flutti áðurnefndur skábróðir minn, sem við skulum bara kalla X, baðkarið í Skútuvoginn fyrir sunnan. Ojæja, ágætt, þarna verður þó varla nokkur töf, ekki vil ég nú leggja slíkt á hann X blessaðan, hann er nú aldeilis búinn að gera gott. Ég varð eiginlega ekkert hissa þegar hann hringdi og sagði mér að ég þyrfti að tala við þann sem var að taka á móti karinu. Það var að sjálfsögðu ekki sá sem vissi allt um málið, ónei, auðvitað var hann ekki að vinna, og nú þurfti ég að reyna að koma manneskjunni sem ég talaði við (ég er ekki ennþá viss um hvort það var karl eða kona) í skilning um það hvernig halda skyldi á málunum. Planið var að leggja andvirði karsins inn á reikninginn okkar í Húsasmiðjunni, sem að sjálfsögðu var ekki orðinn til þegar þarna var komið sögu. -Neinei, ég átti bara að fá senda inneignarnótu með pósti fyrst svo var. -Já en, geturðu ekki geymt hana hjá þér í klukkutíma eða svo, þangað til ég er búinn að stofna reikninginn, og lagt hana þá inn á hann? Nei, einhvern veginn virtist það vera honum/henni ofviða, og þegar viðkomandi hringdi í annað sinn gafst ég upp og sagði honum/henni bara að senda það þá með pósti, ég skyldi bara fara í Húsasmiðjuna, stofna þennan djöfulsins reikning, versla og fara seinna með inneignarnótuna til að leggja inn á hann.

Er þetta nokkuð orðið þreytandi rýjurnar mínar?
Á ég kannsi að hætta þessu?
Eða viljið þið framhaldið á morgun?
Nóg eftir!

Free Web Site Counter
FreeLogs.com