fimmtudagur, janúar 13

Mnjá

Ég hef staðið sjálfan mig að því, æ ofan í æ, að segja "mnjá", í stað "já", þegar svo ber undir.
Þannig uppgötvaði ég þetta:
Síðastliðið sumar tók ég eftir því að sonur minn sagði aldrei já, heldur mnjá, og vildi ég reyna að bæta úr þessu, og leiðrétti hann í hvert sinn. Áfram hélt þetta nú samt, þannig að ég fór að velta því fyrir mér hvar hann yrði fyrir þessum áhrifum. Auðvitað kom svo að því að ég stóð sjálfan mig að því einn góðan dag að segja mnjá. Þetta var ekki skemmtileg uppgötvun. Skemmtilegra varð það ekki þegar syninum varð það á einn daginn að segja mnjá; þegar hann hafði gert það, sagði hann stundarhátt við sjálfan sig: "bara segja já, ekki mnjá!" Vesalings drengurinn hafði svo oft fengið ofanígjöf hjá mér að hann var farinn að skamma sig sjálfur! Æ, ekki leið mér vel, að hafa sjálfur komið drengnum upp á að tala svona, og síðan að skamma hann fyrir að tala vitlaust.

Enn þann dag í dag stend ég mig semsagt að því öðru hvoru að segja "mnjá" og skora ég á þá sem mig þekkja og umgangast að leggja við eyrun næst þegar þeir/þær hitta mig og hlusta eftir þessu, og máske leiðrétta mig?

Með fyrirfram þökk

Free Web Site Counter
FreeLogs.com