þriðjudagur, maí 23

Endurminningar spilafíkils

Komiði sæl og takk fyrir síðast.
Enn lítur ný færsla dagsins ljós, vona að þið séuð ekki orðin leið á þessu!
Ég var einhversstaðar búinn að lofa nýrri æskuminningu og hér kemur hún. Eða, gömul æskuminning...? Ég á engar nýjar æskuminningar.

Eins og sumir vita mázke, er ég fæddur og upp alinn á Selfossi, sem reyndar heitir varla Selfoss lengur, þökk sé Eyþóri Arnalds. Hei, hérna koma kringumstæður sem ég hef svolítið séð í hillingum undanfarið: Eyþór Eðvalds hittir Eyþór Arnalds á förnum vegi og kallar svona: Eyþór Arnalds! Ég heiti Eyþór Eðvalds!

En þetta var útúrdúr.
Ég fæddist semsé á Selfossi, nánar til tekið á elliheimili.
Liðu nú árin og mun ég hafa verið þetta tólf vetra gamall þegar eftirfarandi atburðir áttu sér stað. Þannig hagaði til á Selfossi í þá tíð, að á nokkur rann í gegnum bæinn, og nefndist hún Ölfusá. Er kannski ekki rétt að segja að hún hafi runnið beinlínis í gegnum bæinn, þar eð norðan við hana var ekki mikil byggð; tvær götur með húsum við.
Og Bellubar. Bellubar var sjoppa sem staðsett var fyrir utan á eins og það var kallað, einhverntímann í fyrndinni hafði staðarhaldari þar verið kona sem var kölluð Bella, rétta nafnið á sjoppunni var Arnberg.

Á Arnbergi voru alla tíð leiktæki lúsífers, svokallaðir krónukassar, eða rauðakrosskassar. Var ákaflega spennandi að fara hjólandi þangað ef manni hafði áskotnast króna með einum eða öðrum hætti; þar eyddi maður henni í rauðakrosskassanum í stað þess að leggja fyrir. Þarna sjáið þið hvílíkum heljartökum spilafíknin hafði náð á mér þegar á unga aldri.
Eitt sinn hafði ég eignast þrjár-fjórar krónur og hugði ég mér gott til glóðarinnar, þeysti þegar á Arnberg á Velamos reiðhjólinu mínu og gekk inn, skjálfandi af gróðafíkn. Þegar þessir ógnaratburðir áttu sér stað var kominn til sögunnar rafknúinn rauðakrosskassi með þremur hjólum, á þau voru dregnar sakleysislegar myndir af ávöxtum og annarri hollustu, sem einvörðungu var ætlað að glepja börn og einfeldninga til þess að moka fjármunum sínum í hann. Þessi kassi hafði leyst af hólmi eldri gerð, sem var flatur kassi sem stóð upp á endann með framhlið úr gleri. Í þessa eldri gerð stakk maður krónunni í slíður á hliðinni efst og skaut henni með handafli inn í kassann og reyndi að hitta í þartilgerð göt, sem gáfu manni misháar fjárhæðir.

Nú var semsagt komin til sögunnar ný tegund og hóf ég nú að skemmta skrattanum með því að láta ginnast til fjárhættuspils. Núna kannast flestir við það hvernig svona tæki vinnur, króna fer í, upp kemur álitleg staða, tveir eins, kassinn hvíslar að manni: "settu aðra krónu í, stöðvaðu hjólin sem eru tvö eins og sjá, ég get gert þig vellauðugan á einu augabragði!" og maður fellur kylliflatur fyrir fagurgalanum.
Nú setti ég síðustu krónuna í kassann, og viti menn, upp kom áðurnefnd staða, tveir eins! Melónur! Og ég búinn með krónurnar!
Seiðandi rödd kassans bergmálaði innra með mér: "eina enn... bara eina krónu enn, og þú getur keypt þér DBS hjólið sem þig dreymir um!"
Hjólið! Ókei, ég hjóla heim og redda krónu, ég verð að redda mér krónu! Ég var farinn að hugsa eins og heróínfíkill í fráhvörfum, allt snerist um að svala fíkninni.
Ég hentist upp á hjólið og hjólaði í loftköstum heim, fimm mínútna leið. Þegar heim var komið upphófst æðisgengin leit að krónu, öllu var snúið við og leitað í hverju skúmaskoti. Allan tímann kallaði kassinn á mig, ég var viti mínu fjær, hvað ef einhver annar kæmi að kassanum og stingi krónu í? Verð að flýta mér! Ég man ekki lengur hvar ég fann krónu, en allt í einu var ég kominn með hana í hendurnar, rjóður og úfinn, en sigri hrósandi, nú mátti engan tíma missa, upp á hjólgarminn aftur, troða troða pedalana svo það brakar í hjólinu af átökunumplísplísplísvonandierenginnbúinnaðskemma...!

Eftir óratíma kom var ég aftur kominn að Bellubar, stökk af hjólinu og gekk inn með dúndrandi hjartslátt, ég þorði varla að kíkja á kassann en herti mig loks upp í það. Fjúhúhúkket! Enn var sama staðan uppi, tvær melónur, þeinkjú god! Titrandi fingrum renndi ég krónunni dýru í slíðrið, studdi á hnappana tvo til að bremsa melónurnar af, dró djúpt inn andann og sló á hnappinn sem setti þriðja hjólið af stað. Það snerist og snerist, á meðan runnu fyrir hugskotssjónum mínum allir þeir hlutir sem ég ætlaði að kaupa mér fyrir gróðann. Loksins, loksins var komið að því, hjólið stöðvaðist!

Plóma.

Free Web Site Counter
FreeLogs.com