laugardagur, nóvember 22

Halló

þetta djöfulsins tölvudrasl, en hún Sigrún mín sem er algjör snillingur og alveg æðisleg og frábær og best og fallegust og fyndnust og skemmtilegust og ég gæti haldið áfram endalaust að telja upp hennar æðislegu kosti, en allavega þá lagaði hún þetta fyrir mig.

Jæja geyin mín. Mig langar að deila með ykkur æskuminningu einni, í tilefni þess að Grease er að gera allt vitlaust allsstaðar.
Sko, kannski að ég byrji á því að segja ykkur að þegar ég var lítill átti ég mér þann draum heitastan að vera dökkhærður. Allir hafa í æsku þráð að vera einhvernveginn öðruvísi en þeir voru, minn draumur var semsagt að vera dökkhærður. Hvers vegna? Jú, í fyrsta lagi var ég fagurlega rauðhærður og fékk þ.a.l. ansi oft að heyra það, var semsagt töluvert mikið strítt vegna þess. Í öðru lagi var mitt átrúnaðargoð (eitt af mörgum) sjálfur Tarsan. Hann var ekki aðeins dökkhærður, heldur með alveg kolsvart hár, svo svart að á það sló stálblárri slikju, samkvæmt teikningum að minnsta kosti.

Og svo kom Grease.
Danny Zuko og félagar um allar koppagrundir, flestallir dökkhærðir og myndarlegir, fjaðrandi í göngulagi og með brilljantín í hári, svo gljáði á eins og nýbónað gólf.
Grease æðið fór yfir eins og eldur í sinu hér á landi (reyndar ári eftir að byrjað var að sýna myndina í Amríku) og ungir, fjallmyndarlegir og ekki síst dökkhærðir menn á hverju strái. Tónlistarbærinn Selfoss fór að sjálfsögðu ekki varhluta af þessu æði, um plássið skálmuðu tröllmyndarlegir, ungir menn, fjaðrandi í göngulagi og með brilljantín í hári.

Lítill, rauðhærður drengur hékk á grindverki og horfði öfundaraugum á þessa dökkhærðu menn með brilljantín og óskaði þess að vera orðinn einn af þeim. Loks kom að því að mamma skyldi klippa mig og bað ég sérstaklega um að fá grísklippingu, þ.e.a.s. feiti í hár. Var það auðsótt mál. Kvaðst faðir minn eiga brilljantín frá sínum sokkabandsárum, tuttugu árum fyrr. Flott, hugsaði ég, nú fæ ég orginal brilljantín, árgerð1956 mar! Mamma klippti og pabbi kom sigri hrósandi með, ekki brilljantín, heldur einhverja hárolíu í flösku, sem hann bar í hárið mitt eftir klippingu. Mamma greiddi síðan aftur og fór svo að blása hárið!

Þegar þessu var lokið steig ég úr stól, fór rakleitt inn á bað og leit spenntur í spegil. Við mér blasti fagurlega rauðhærður drengur með broddaklippingu, var nokkurnveginn í útliti eins og rauður strákústur. Þetta var ansi langt frá því að vera kolsvart, koppafeitisgljáandi Gríshár. Voru vonbrigði töluverð og minnist ég þess ekki að hafa gert fleiri tilraunir með hárið mitt fyrr en löngu seinna þegar ég safnaði hári. En það er nú önnur saga.

Ég þakka þeim sem lásu, lifið heil.

Free Web Site Counter
FreeLogs.com