miðvikudagur, desember 17

Endurminningar, fleiri endurminningar!


Kæru aðdáendur!

Vinnu minnar vegna þarf ég öðru hverju að fara í kaffi og mat. Við kaffi og matarborðið eru íþróttir vinsælt umræðuefni, sem ég tek þó öngvan þátt í. Er þar oftar en ekki til umfjöllunar ungt íþróttafólk, bæði í héraði og utan. Til dæmis var í dag verið að fjalla um ungan pilt sem þykir afar gott efni í knattspyrnumann, að vísu er piltur þessi næsta áhugalaus um íþrótt sína og þykir mönnum það miður.

Við þessar umræður rifjaðist upp fyrir mér ferill minn við handknattleiksiðkun, sótti ég nokkrar æfingar er ég var ellefu eða tólf vetra gamall. Þegar ég segi nokkrar æfingar, á ég við fjórar til fimm. Hvers vegna urðu þær ekki fleiri? kann fólk að spyrja. Jú, þannig var að á fjórðu eða fimmtu æfingu vórum við látnir standa við línuna, (asso bogadregnu línuna fyrir framan mark) og snúa fram á gólf. Þessu næst var kastað til manns knetti og síðan skyldi maður láta sig falla inn í svokallaðan teig og henda knettinum í mark.

Ég hef alla tíð verið með eindæmum hlýðinn (um það getur elskulegt ástardjásnið mitt vitnað) og gerði ég því eins og fyrir mig var lagt. Kastað var til mín knetti, ég greip hann með báðum höndum, lét fallast inn í teig og sneri mér í fallinu í hálfhring. Í miðju falli varpaði ég knettinum af öllum kröftum og hitti meira að segja markið! Sem ég lá á gólfinu eftir fall og varp, benti þjálfarinn á mig og hrópaði áköfum og skipandi rómi til hinna drengjanna: "þið eigið að gera eins og hann!!"

Þar sem ég lá inni í teig, upp með mér en jafnframt rauður í framan eins og tómatur af allri athyglinni, hugsaði ég með mér: "þetta hlýtur að vera hátindur ferils mín sem handknattleiksmanns!" Að sjálfsögðu gerði ég það skynsamasta í stöðunni; hætti á toppnum.
Var það ekki eina vitið, kæru lesendur?

Yfir handknattleikszetor kveður að sinni.

Free Web Site Counter
FreeLogs.com