föstudagur, janúar 9

Jæja, hér kemur hún

Já, loksins er hún komin, gjöööriði svo veeeeeeeeeeeeeel!!



Þeir kalla mig Munda og það er allt í lagi. Mig langar að segja ykkur litla sögu sem gamall maður sagði mér fyrir nokkrum árum. Þessi saga tengist sögu rokksins órjúfandi böndum, þó atburðir í henni hafi ekki haft mikil áhrif á þróun þess.

Ég settist niður við opinn eld með gömlum manni eitt kvöld, dró upp úr pússi mínu límonaðiflösku og byrjaði að drekka úr henni.
Gamli maðurinn hóf frásögn sína: “Ég er gamall maður og lúinn, og hefi marga fjöruna sopið. Vorið sem ég fermdist, það mun hafa verið árið 1983 í bítlabænum Keflavík, keypti ég svokallað trommusett fyrir fermingarpeningana mína. Ég, ásamt vinum mínum, ætlaði að marka mín spor í tónlistarsöguna og leika músík í hljómsveit. Þetta var á þeim tíma þegar pönkið var að deyja og okkur langaði að vera með í fjörbrotum þess. Nújæja, við fengum æfingahúsnæði í JC húsinu og þar lágum við yfir hljóðfærunum og reyndum að skapa pönkmúsík. Mig langaði að semja krassandi pönktexta og fór í þeim tilgangi inn í annað herbergi. Þar hafði ég út um gluggann útsýni yfir bækistöðvar Ameríkuhers og ákvað að textinn yrði um stríðsbrölt og kjarnorkuvá.”
Gamli maðurinn gerði hlé á tali sínu til að koma frá sér langri hóstarunu sem endaði í hálfgerðri dauðahryglu. Orðalaust rétti ég honum límonaðiflöskuna, hann tók við henni skjálfandi hendi og sagði: “Blessi þig sonur.”
“Hvert var ég nú kominn?” sagði hann. “ Já, kjarnorkan lagsi, hún er ekkert lamb að leika sér við. Ég fór nú að reyna að koma mér í rétt hugarástand, reyndi að kalla fram úr hugskoti mínu myndir af sveppinum, sá fyrir mér grillaða Japani og fleira í þeim dúr. Brátt var hugur minn orðinn svellandi af heilagri reiði pönkarans. Titrandi af vanmáttugri bræði tók ég upp penna og byrjaði að skrifa, ég réð ekki neitt við neitt, orðin gusuðust á blaðið og eftir fáeinar mínútur rétti ég úr mér skjálfandi og móður. Og sjá, ég hafði skapað ódauðlegt listaverk! Ég renndi augunum yfir blaðið og fann fyrir kennd sem ég bar kennsl á aftur löngu síðar er ég varð faðir í fyrsta sinn. Svona hljóðar nú þetta ljóð:

Herrarnir í löndunum
Sem ráða mestu í þessum heimi
Eru sí og æ að keppast um
Bestu flaugar úti í geimi

Varpa niður sprengju
Allt er farið
Líta upp og sjá að
Allt er marið

Hver er þá tilgangurinn með
Þessum sprengjum?
Væri ekki nær að
Halda okkar engjum?”

Það varð dauðaþögn. Ekkert heyrðist nema snarkið í eldinum. Logarnir dönsuðu á andliti gamla mannsins og endurköstuðust af klettaveggnum. Ég var búinn að missa áhugann á límonaðiflöskunni. Ég fann streng bifast í brjósti mér og fékk kökk í háls.
“Aldrei síðan hefi ég verið snortinn af listagyðjunni á slíkan hátt” sagði gamli maðurinn titrandi röddu og lítið tár lak niður hrukkótta kinn. Ég ákvað að gefa honum restina úr límonaðiflöskunni.

Svona lauk nú þeirri frásögn, en sá gamli sagði mér frá öðru atviki sem henti hann og vini hans er þeir fóru á tónleika með hljómsveitinni Crass og skal ég með ánægju birta hana ef þið óskið.

Ykkar einlægur,
Mundi.

P.S. Þess má til gamans geta að síðan þetta var hef ég ekki drukkið límonaði.

Free Web Site Counter
FreeLogs.com