þriðjudagur, febrúar 24

Minningar, já, minningar

Nú hefur maður tíma til að blogga, lasinn enn eina ferðina, hvað er að gerast með mann?

Þegar ég var krakki og unglingur tók ég náttúrulega allar umgangspestir, fannst það alltaf voða notalegt, liggja bara í rúminu yfir daginn með útvarpstæki heimilisins. Það var lítið tæki sem gekk fyrir rafhlöðum en var ekki tengt í rafmagn eins og ætla mætti, því þurfti alltaf að vera að skipta um rafhlöður. Ekki man ég samt af hvaða tegund tækið var. En í því hlustaði ég á gufuna daginn langan og drakk malt.

Svo þegar systir mín byrjaði að gelgjast eignaðist hún lítið kassettutæki sem hún notaði til þess að taka upp Lög unga fólksins í eldhúsinu á mánudagskvöldum. Þá stillti hún kassettutækinu upp á móti útvarpinu og ýtti á rec þegar við átti. Á mánudagskvöldum voru Tommi og Jenni sýndir í sjónvarpinu, á sama tíma og Lög unga fólksins voru í útvarpinu. Á einni upptökunni má heyra þegar faðir minn opnar eldhúsdyrnar, stingur hausnum inn í eldhús og hrópar hátt og snjallt -"Tommojenni!" og uppsker ákaft -"suss!" frá móður minni og systur. Annars var hann vanur í greiðasemi sinni að láta vita þegar ærslabelgirnir áðurnefndu voru á dagskrá.

Kassettutæki systur minnar (sem kommentar hér öðru hvoru sem sillA, til aðgreiningar frá Silla) kom sem himnasending til mín og gerði ég margar upptökutilraunir með það. Til dæmis var hægt að láta það spila hraðar með því að ýta pásutakkanum niður til hálfs og prófaði ég því að syngja lagstúf hægt inná band og spila hann með þessum hætti. Engu að síður hljómaði ég eins og strumpur við afspilun, enda ekki búinn að öðlast þessa hyldjúpu og yndisþýðu rödd sem ég er í dag gæddur. Lagstúfurinn var byrjunin á Himinn og jörð eftir Gunna Þórðar, þetta man ég!

Löngu síðar fattaði ég að nota sömu tækni við upptökuna sjálfa (ýta pásutakkanum niður til hálfs) þannig að við afspilun snerist dæmið við og ég hljómaði eins og nashyrningur í dýragarði. Eða sjálfur Kölski.

Læt ég þetta duga að sinni, lifið heil.

Free Web Site Counter
FreeLogs.com