fimmtudagur, mars 18

Mannasiðir

Ég hef komist yfir bókina "Mannasiðir" sem Þorsteinn Gíslason gaf út árið 1920. Er ætlun mín að birta valda kafla úr henni á næstu vikum, og hér kemur fyrsta lesning, vessgú.

21. Hvernig skal andlit hirða?

Hreinn og fagur litarháttur er ekki öllum gefinn, en skylt er þeim, sem hann hafa fengið að gjöf, að reyna að halda honum við. Margir eru ljótir á hörund, rauðir, blakkir, gulir eða gráir í framan, með nabba í andliti o.s.frv. Það er oft vöggugjöf og þeim til sorgar og mæðu, sem fyrir verða, einkum konum, enda leitast þær oft við að ráða bót á því með tállitum og dufti (Sminke, Pudder). En það er að eins til að gera vont verra, fara úr öskunni í eldinn.

Ljótur (og óhraustlegur) litarháttur stafar oft af einhverri veilu innifyrir, t. d. meltingarörðugleikum, sem oft geta lagast með breyttu viðurværi o. fl., og því gefst oft vel að leita læknis í þeim efnum. Stoði það ekki, þá er ekki annað til en að hlýða reglunni, er segir: “Það, sem verður að vera, viljugur skal hver bera.” Litir og duft gera ekki nema ógagn eitt, þau sýkja hörundið enn meira, með því að þau loka svitaholum þess og gera þannig sjúkt og ljótt hörundið enn sjúkara og ljótara. Auk þess er það hin mesta fásinna af konum, að þessi brögð geri þær ásjálegri og eigulegri, því að “upp komast svik um síðir”. Karlmennirnir komast fljótt á snoðir um, að þessar litfögru drósir eru málaðar manneskjur, og skortir þá sjáldan hlátur og hnýfilyrði í þeirra garð. Framan af 19. öld var þessi ósiður nær ókunnur hér á landi, en erlendis því tíðari, en er nú, sem betur fer, að leggjast þar niður, nema í leikhúsum, með því að þar ber nauðsyn til að breyta útliti manna á ýmsan hátt eftir hlutverki þeirra á leiksviðinu. Hér á landi virðist hann aftur á móti vera að færast í vöxt og er það illa farið, því að tállitir skemma hörundið, svo árangurinn verður öfugur við tilganginn.

Free Web Site Counter
FreeLogs.com