Harmleikur í Húsasmiðju, annar þáttur
Góðir lesendur.
Ég er hrærður yfir þeim viðtökum sem frásögnin mín hefur hlotið og vil ég þakka ykkur af heilum hug. Nú hef ég komist að því að þetta er algjört beisik kommentakerfi sem mín elskulegust hefir útvegað mér, og komast ekki fleiri komment en fimm inn á það. En teljarann útvegaði ég mér sjálfur og taldi hann á örfáum klukkustundum upp í átta! (þar af fór ég sjálfur fimm sinnum inn á síðuna að gá.)
En, nóg um það, nú kemur annar hluti hrollvekjunnar minnar, sem er dagsönn.
Svo vonast ég til þess að sjá ykkur sem flezt á zkötuhlaðborði á Þinghúsinu í kvöld!
Gjörið svo vel.
Ég hringdi í Húsasmiðjuna fyrir norðan og fékk þar að vita að ef ég vildi kaupa styttra kar skyldi ég skila þessu og punga út þrettán þúsund kalli til viðbótar, styttri kör eru nefnilega dýrari. Er ég spurði fékk ég þó að vita það að ef ég vildi skila karinu þá væri ekki útilokað fyrir mig að fá það endurgreitt, þ.e. ef ekkert sæi á því. Með það kvaddi ég í bili og hringdi því næst í BYKO. Jújú, þar gæti ég fengið baðkar uppá einn og sextíu fyrir tuttugu þúsund kall, með því að stofna reikning og leggja upphæðina inn á hann. Nó probblemm.
Aftur hringdi ég í Húsasmiðjuna og sagði að ég gæti fengið kar annarstaðar fyrir tuttugu þúsund. Núna hefði hver einasti sölumaður með sjálfsvirðingu komið með gagntilboð. Neeeei, ekki hjá Húsasmiðjunni minn kæri, að auki var nú skyndilega ekki lengur inni í myndinni að fá endurgreitt, heldur yrði ég að skila og skipta. Ekki vildi ég fara að borga tæpan þrjátíu þúsund kall fyrir baðkar sem ég gæti fengið annarstaðar fyrir tuttugu, þó svo að til kæmi starfsmannaafsláttur. Því ákváðum við Sigrún að skila karinu og taka út glersteina í staðinn, til að hlaða upp sturtuvegg með, það var líka á verkefnalistanum. Það átti ekki að vera neitt tiltökumál, bara að stofna viðskiptareikning og andvirði karsins yrði lagt inn á hann.
Jæja, þá væri bara að koma frá sér karinu. Ókei, best að senda það bara suður með Flytjanda, ekki borgaði sig að láta þá fara með það til Akureyrar, því þá hefði þurft að flytja það fyrst suður á stöðina í Klettagörðum, og þaðan norður. Jújú, suður fór það, ég þurfti reyndar sjálfur að redda flutningi frá stöðinni og í Skútuvog, það leysti skábróðir minn fyrir sunnan, sem býr svo vel að eiga sendibíl.
Á föstudeginum lá leiðin til Akureyrar að sækja Sigrúnu og glerkubbana. Og tvo fermetra af mósaíkflísum í sturtubotninn. Á leiðinni tókst mér eftir ítrakaðar tilraunir að ná sambandi við mann fyrir sunnan í Húsasmiðjunni þar. Sá maður vissi allt um málið, kollegi hans fyrir norðan var búinn að láta hann vita og þeir búnir að koma sér saman um það hvernig haga skyldi málum. -Jæja, hugsaði ég, gæfan bara farin að snúast mér í hag! Ó, hversu rangt ég hafði fyrir mér!
Er þetta nokkuð farið að verða spennandi?
Framhald á morgun, aðfangadag, klukkan 15:00
<< Home