laugardagur, desember 25

Harmleikur í Húsasmiðju, fjórði þáttur

Jólin eru komin og allt á kafi. Í gærkvöldi (aðfangadagskvöld) fórum við í tvo björgunarleiðangra á frábæra bílnum okkar, hann er óstöðvandi í nýföllnum snjó.
En, áfram heldur hryllingurinn. Ævintýri á aðventu.

Leið okkar lá að nýju í Húsasmiðjuna, í þetta sinn með uppáskrift vinkonu okkar, sem var svo lánsöm að eiga íbúð, á reikningsumsókninni. Þar vorum við spurð hvort karið væri komið suður. Jújú, það hélt ég nú, að vísu var þetta nú ekki alveg eins og búið var að plana, þeir ætla bara að senda inneignarnótuna til mín í pósti. Eitthvað ætlaði blessaður maðurinn að gera vesen úr því, en þá var mér alveg nóg boðið, ég byrsti mig við manninn og sagði hvass að ég vildi fara að klára þetta helvítis mál, nokkurn veginn orðrétt. Þá kipptist maðurinn við, hann varð allur hinn alúðlegasti og sagði mjúkum rómi –jájá við kippum þessu nú í lag í rólegheitum. Með það sendi hann mig bara fram í búð að versla, sá að hér var alvara á ferðum.

Aahhhhh..... haldiði að það sé munur, best að fara í gólfefnadeildina og græja þessa kubba og flísar í fljótheitum, vorum búin að velja alltsaman daginn áður.

Fólkið á undan okkur var búið að bíða í hálftíma eftir afgreiðslu. Þegar röðin loksins kom að okkur reyndist pilturinn sem var að afgreiða, ekki hafa hundsvit á því sem við ætluðum að fá. Til dæmis: glerkubbarnir sem við ætluðum að fá eru hlaðnir þannig að sérstök steypa er höfð á milli, ca. einn sentimetri á þykkt. Þegar við spurðum hann semsagt hvað ætti að vera á milli, leit hann á okkur með einlægni í augum og sagði: -ekkert, þið bara límið kubbana saman! –Nújæja? Og með hverju? –Jah, þaað veit ég ekki, var svarið
Að sjálfsögðu var ekkert til af því sem við ætluðum að fá, hvorki flísarnar né kubbarnir, -nei það er allt bara á lagernum fyrir sunnan, sagði hann. Við vorum farin að andvarpa frösum á borð við –gat svosem verið! Og nú var farið að fara svolítið um hann. Skjálfandi fingrum fór hann að reyna að finna í tölvunni hvort þetta væri til í einhverri búðinni fyrir sunnan, lagerinn þar að sjálfsögðu lokaður. Jú, hvorttveggja til á Smáratorgi. Sigrún hringdi í systur sína sem var einmitt í jólagjafaleiðangri í Reykjavík. Hún var til í að fara á Smáratorg og taka allavega eitthvað þar, en það yrði að gerast fljótt, því heiðin væri orðin illfær og gæti jafnvel lokast. Nú hringdi síminn minn og þar reyndist vera baðkarsmaðurinn sem ég hafði byrst mig við, að tilkynna mér að reikningurinn væri tilbúinn og búið að leggja andvirði baðkarsins inn á hann. Ég man ekki hvort ég þakkaði honum sérstaklega fyrir. Við kvöddum sveittan og stamandi afgreiðsludrenginn í gólfefnunum og strunsuðum út.

Gott fólk, nú fer að líða að lokum, einungis þrír hlutar eftir!
Meira á morgun.

Free Web Site Counter
FreeLogs.com