þriðjudagur, desember 28

Harmleikur í Húsasmiðju, sögulok (vonandi)

Jæja kæru lesendur, ferðin mikla er loks á enda. Er það með eftirsjá sem ég legg hér inn lokahluta þessa sálfræðitryllis, það eina sem vantar í þessa frásögn er væn gusa af blóði.

Hír itt komms.

Og í dag er miðvikudagur. Í dag hringdi kona frá, jújú, Húsasmiðjunni, og sagðist, alvarleg í bragði, vera með umsókn um reikningsviðskipti með sjálfskuldarábyrgð og nefndi til sögunnar vinkonuna sem hafði skrifað uppá fyrir okkur. Ég hummaði samþykkjandi, afskaplega þurr á manninn, og loks bar hún upp erindið: -Þú hefur ekki skrifað sjálfur undir! sagði hún ásakandi. Í stað þess að sleppa mér algjörlega sagðist ég, enn þurrari á manninn, hafa skrifað nafnið mitt á umsóknina eins og ég var beðinn um. –Já það er ekki nóg, þú áttir líka að skrifa undir. –Og skyldu þá þínir menn ekki hafa átt að passa upp á það? spurði ég hryssingslega. –Jú, auðvitað, sagði hún, -en, lastu ekki samninginn? Þaaað varð ég að játa að ég hafði ekki gert, og ekki var það sérlega skynsamlegt, það játa ég líka, en áttu ekki blessaðir mennirnir á Akureyri að passa það samt sem áður að öllum formsatriðum væri fullnægt? Ég held að þeir hafi reyndar tekið eftir þessu en bara ekki lagt í að hringja í mig og biðja mig að koma og skrifa nafnið mitt á þartilgerða línu. Svo pirraður hafði ég verið orðinn þegar á laugardeginum áður.

Um kvöldið, þennan sama miððvikudag, frekar seint, var dinglað hér á Melaveginum. Og viti menn! Voru ekki steinarnir bara komnir, með Adda á Bálkastöðum!
Hann er ekki að keyra fyrir Flytjanda, þannig að þeir þarna fyrir sunnan hafa brugðist við reiðilestri reiða mannsins á Hvammstanga og fundið næsta bíl sem færi norður. Þessir kjánalingar hafa sennilega ekki vitað að þetta breytti ekki neinu, Flytjandabíllinn kom á sirkabát sama tíma og við vorum engu bættari.
Fylgiseðillinn var nokkuð fyndinn, á honum, sem var stílaður á mig að sjálfsögðu, voru taldir upp téðir glersteinar, mósaíkflísar og, hvað haldiði? Jú, að sjálfsögðu 26 tommu reiðhjól, en ekki hvað!? Nú var þessi skrípaleikur farinn að taka á sig æ furðulegri myndir. Reyndar hef ég hvorki séð tangur né tetur af þessu blessaða reiðhjóli, hefði samt alveg verið sáttur við að fá svoleiðis í bætur fyrir allt vesenið og þvæluna frem og tilbage.

Nú held ég að ég sé búinn að segja nokkurnveginn allt sem hægt er að segja um þetta dæmalausa mál, dularfullu glersteinarnir, væri kannski ágætur titill á þessa frásögn. Það væri kannski gaman að fá tillögur frá ykkur um titil?

En, hvað hefur þessi frásögn annars kennt okkur kæru lesendur? Jú-

Húsasmiðjan –EKKERT MÁL!

Amen.


Free Web Site Counter
FreeLogs.com