mánudagur, desember 27

Harmleikur í Húsasmiðju, sjötti þáttur

Í dag var ég í vinnunni. Það var gaman.
Þorvaldur Halldórsson er á sjó. Það er gaman.
Nú kemur sexti hluti. Það er gaman.

Í dag er þriðjudagur og mín heittelskaða fór spennt í pakkhúsið til að sækja kubba og flísar, bíllinn kom í gærkvöldi, gaman gaman. Þegar hún var búin þar hringdi hún í mig og sagði –gettu hvað. Jú, kæri lesandi, AUÐVITAÐ komu helvítis kubbarnir ekki. Og heldur ekki flísarnar. Mín bað mig að hringja í Húsasmiðjuna og vera reiður, hún nefnilega kann það ekki. Að vera reið við annað fólk meina ég.
Annað fólk en mig meina ég.
Ég hringdi á Smáratorg og talaði við manninn frá laugardeginum, ég var reyndar ekkert voðalega reiður og talaði bara nokkuð eðlilega. Maðurinn varð auðvitað hissa og sagðist hafa sent pöntunina frá sér strax. Úr varð að hann skyldi hringja á lagerinn (dótið var nefnilega þar og skyldi þaðan koma), og hringja síðan í mig og segja mér stöðu mála. Ekki man ég hvort ég þakkaði fyrir í lok símtalsins, eins og ég er vanur, enda kurteis með afbrigðum. Indæll og próper ungur maður.

Um það bil þremur klukkustundum síðar, þegar ekkert var farið að heyrast frá manninum, hringdi ég bara sjálfur á lagerinn fyrir sunnan og þar sagði mér ungur maður að varan hefði farið frá sér þá um morguninn (þriðjudags altsvo og bíllinn farinn norður fyrir tæpum sólarhring). –Af hverju ekki fyrr, spurði ég og farið að þykkna talsvert í mér. –Nú, þú pantaðir í gær!
Nú var mér nóg boðið, ég sagði –ég pantaði þetta á laugardaginn væni minn og nú er ég búinn að fá algjörlega nóg af ömurlegri þjónustu hjá Húsasmiðjunni og nú skaltu senda mér þetta í einum logandi hvelli mér er alveg sama hvernig og mér dettur ekki í hug að borga flutninginn! Aumingjans piltinum var brugðið, hann pípti eitthvað sem svo að það yrði að redda þessu, tók ég urrandi undir það og bætti við öðru “væni minn”, bara svona til að láta hann virkilega finna hvað hann væri vesæll og smár.
Ekki á ég von á því að draslið komi samt fyrr en á fimmtudag, þorláksmessu, þannig að sturtubotninn mun bara gapa framan í okkur, gugginn og steypugrár, yfir jólin.

Styttist óðum, allt tekur enda um síðir, í upphafi skyldi endinn skoða, hætta skal leik þá hæst hann stendur, endalokin nálgast!

Næsta, og jafnframt síðasta færsla verður framkvæmd þegar fimm hundruð þúsund manns verða búnir að heimsækja síðuna, þannig að nú er um að gera að vera dugleg krakkar mínir!

Free Web Site Counter
FreeLogs.com