miðvikudagur, ágúst 30

Skúringar

Já, kæru landsmenn, þessa dagana er ég bara húsmóðir, þvæ þvotta, laga sterkt kaffi og drekk, og bara... já. Ég verð að játa að þetta er bara nokkuð notalegt líf, gæti vel hugsað mér að vinna við þetta.

Að vísu getur tekið á að vera atvinnulaus, í mínu tilfelli kemur það fram í svefntruflunum. Maður fer kannski að sofa klukkan ellefu-hálf tólf að kveldi, hrekkur svo upp með andfælum og er þá kannski ekki búinn að sofa nema í mesta lagi hálfan sólarhring. Þá hefst baráttan við að reyna að sofna aftur, stundum tekst það, stundum ekki....

Síðasta föstudagskvöld fórum við að skemmta á ársþingi SSNV að Gauksmýri, þ.e.a.s. ég, Sigrún og Brynja. Við áttum að skemmta á meðan á borðhaldi stóð, þannig að við fengum líka að éta, svaka góðan mat. Við vorum með þriggja laga prógramm plús aukalag, gamla Waterloo, ef við yrðum klöppuð upp ætluðum við að enda þannig á svolitlu stuði. Meiningin var semsagt að flytja allt prógrammið í einu, en Guðmundur Haukur riðlaði því strax með því að biðja okkur að tvískipta því. Ojæja, þá þyrftum við bara að láta okkur detta í hug fimmta lagið til að flytja, en mér bara datt ekkert í hug, sama hvað ég gramsaði.
Lausnin varð sú að þegar við fórum upp í seinna skiptið sagði ég áheyrendum frá vandræðum okkar og bað þá að klappa okkur bara upp strax eftir næsta lag. Svo spiluðum við semsagt næstsíðasta lag á dagskránni og vorum að því loknu klöppuð upp (stóðum náttúrlega ennþá uppi). Ég lét eins og ég væri ægilega hissa og glaður, þakkaði fyrir og svo spiluðum við "aukalagið".

Eitt fyndið: á móti mér við borðhaldið sat Héðinn einhversson, frá Blönduósi. Þegar við vorum búin að spila í fyrra skiptið og ég settist aftur í sætið mitt, hallaði nefndur Héðinn sér í áttina að mér og sagði "þú hefur greinilega lært hjá Guðmundi".
Þar átti hann að sjálfsögðu við Guðmund Hólmar, þann mæta mann og gítarkennara.
Spurning hvort hann getur tekið því sem hrósi eða lasti?
Nafni minn var ca. fimm ára þegar ég byrjaði að kenna sjálfum mér á gítar, en ég var ekkert að draga það fram í dagsljósið :)

Bless í bili.

Free Web Site Counter
FreeLogs.com