Langt er nú umliðið frá síðasta bloggi, hefur maður haft um ýmislegt að hugsa, s.s eins og að vera í drepuleik á netinu og svona.
En nú er komið að því góðir hálsar; nýtt blogg er orðið staðreynd, og það ekki af vestari endanum, heldur ætla ég að deila með ykkur einni af gersemunum mínum. Já, heppnin er með ykkur, nú ætla ég að birta hér í heild sinni lesendabréf úr DV frá því árið 1997. Þar skrifar reiður maður, nokkuð við aldur, ekki veit ég samt hvers vegna hann er svo hoppandi reiður, það er eiginlega ekki nokkur leið að átta sig á því, heldur poppa bara upp spurningarmerki allt í kringum hausinn á manni eftir lesturinn. Svona eins og í teiknimyndasögum. Þetta lesendabréf klippti ég út og hef geymt í veski mínu æ síðan.
Njótið!
Uppgjörið
Gunnar skrifar:
Mér blöskrar nú við öllu ógeðinu og allri heimskunni sem er í gangi þessa dagana. Hvernig stendur á því að hámenntaðir vísindamenn í útlöndum eru að eyða öllum sínum kröftum í að kanna ómerkilegar plánetur og óskiljanlegar víddir og svarthol og svoleiðis? Hugsa sér vitleysuna. Þeir sem geta ekki einu sinni fengið myndbandsspólur til að taka upp réttar myndir í sjónvarpinu eru í stað þess að senda þungmálma út í geiminn. Hvernig getur staðið á því? Skipta kjarnorkusprengjur og geimstöðvar meira máli en mannlegi þátturinn? Hvaða gagn er í því að vita af einhverjum plánetum úti í geim? Hjálpar það einhverjum kannski? Nei, nei, nei. Það skiptir engu máli. Ekki einu einasta.
Þessir vísindamenn ættu frekar að eyða tíma sínum og peningum skattborgara í eitthvað gagnlegt, eins og til dæmis að búa til myndbandsspólur sem klippa ekki endann af öllum myndum sem teknar eru upp í sjónvarpinu.
Og svo er það nú annað: Hvers konar fasistaríki er þetta eiginlega að breytast í? Sígarettan ljúfa er að breytast í bannvöru og það er farið verr með reykingamenn heldur en raðnauðgara. Við munum nú öll hvernig fór í áfengisbanninu mikla í Ameríku, ekki satt? Al Capone og félagar, ha? Er það það sem við viljum? Nei, segi ég og allir frjálsbornir menn.
Ég er nú kominn talsvert til ára minna svo að ég man nú kannski betur en flestir þegar egg voru talin lífshættuleg. Ég tala nú ekki um smjör og svínafitu. Og núna þykjast þessir vísindamenn hafa sannað að að reykingar geti KANNSKI haft skaðleg áhrif á líkamann. Hvað með bláa M&M, spyr ég nú bara?
Íslensku þegnar: lepjum ekki dauðan úr skel - fáum okkur smók.
Ertu einhverju nær, lesandi góður? Nei, ekki heldur ég, veit bara að þetta er einhver mesta snilld sem ég hef lesið í blaði um mína daga.
Sjáumst svo á trúbadorakvöldi á Þinghúsinu á laugardagskvöldið, Zetorarnir ætla að troða upp seinna um kvöldið í einhverri mynd! Eða myndum!
Spennandi!