sunnudagur, október 5

Reiðmaðurinn

Ég ákvað að sleppa æskuminningu að sinni og hlýða Þorbjörgu.
Hér ætla ég því að segja ykkur frá nýafstöðnum stóðréttum í Þverárrétt.

Ég er nefnilega orðinn hestamaður, sjáiði til, (á nú samt engan hest, bara reiðbuxur og hanska) og þáði því með þökkum boð þeirra í Böðvarshólum, að fara ríðandi með þeim frá Breiðabólstað, í réttirnar, semsagt smala fjallið (ef svo má að orði komast). Reyndar voru svo margir smalar að menn hefðu getað haldist í hendur og fínkembt þannig fjallið.
En allavega, ég fékk þarna kærkomið tækifæri til að taka með mér rommfleyginn sem mér tókst ekki að komast nema niðurfyrir axlir í, við sauðfjársmölun hálfum mánuði fyrr.
Það var svo eiginlega ekki fyrr en þegar við vorum að reka stóðið heim að afloknum réttunum, sem gamanið hófst fyrir alvöru. Um miðbik leiðarinnar kynntist ég því til dæmis hvernig er að drekka bjór úr dós á fleygiferð á hesti, Ingi lét mig fá bjór, við opnuðum hvor sinn og svo var bara að reyna að hitta á bjórinntakið (munninn). Á milli sopanna hélt ég dósinni eins langt út frá líkamanum eins og ég gat, dósin hristist nefnilega svo mikið að bjórinn freyddi þvílík ósköp, var bara eins og brúðarslör í kjölfarið á manni.
Nújæja, eftir síðasta stopp, minnir mig, þá vorum við orðin öftust, ég, Þorbjörg og Anna Dröfn, og þá vildi Þorbjörg fara að syngja. Ég lét til leiðast og við sungum hástöfum, en Anna Dröfn hlustaði í hljóðri aðdáun, og til að gæta jafnræðis með okkur Þorbjörgu, söng ég eins illa og mér var unnt :o)

Síðasta spölinn fór hluti mannskapsins á undan heim afleggjarann með aðal stóðið, við hin biðum um stund, og rákum svo heim þrjá hesta sem áttu að fara inn. Þegar komið var næstum því heim að húsunum, ákváðu þessir þrír að sennilega væri nú skemmtilegra að fara eitthvert annað, og tóku því strojið út á tún, eftir krókaleiðum þó. Tveir þeirra voru á leið út í buskann þegar við þeystum á eftir þeim, Jón Ben og ég. Jón er sýnu vanari hestamaður en ég, sem sýndi sig í því að eitt augnablik fór hann hraðar en merin sem hann var á, sveif sem sagt fram af henni í tignarlegum boga, en sleppti þó aldrei taumnum, lenti einhvernveginn (ég sá það ekki nógu vel) og dreif sig á bak med det samme. Þó snöggur hafi hann verið, var samt dýrmætur tími farinn í þennan háloftadans, þannig að ég hentist fram úr honum á honum Stormi, við spýttumst eftir túninu og náðum að komast fyrir óþekktarormana tvo. Þorbjörg sagði síðar frá því að mannskapurinn hafi fylgst með okkur Stormi, með nagandi áhyggjur af því að ég færi sömu leið og Jón. Konni sagðist nú samt hafa séð að ég hallaði bara mátulega mikið í beygjunum.

Ég er nefnilega orðinn svo svakalega mikill reiðmaður, sjáiði til....

Free Web Site Counter
FreeLogs.com