Gott fólk.
Ýmsir hafa eflaust velt því fyrir sér hvers vegna ég hverf svo skyndilega frá störfum í sláturhúsi KVH ehf. Hér á eftir mun ég rekja ástæður þess.
Hinn fyrsta febrúar síðastliðinn tók semsagt til starfa hið nýja fyrirtæki, Sláturhús KVH ehf. Skyndilega voru skagfirðingar orðnir dagleg sjón í húsinu og það fyrsta sem var gengið frá gagnvart starfsfólki voru ráðningarsamningar. Ég var tekinn á eintal og tjáð að mín biði glæst framtíð innan fyrirtækisins. Ég yrði væntanlega hækkaður í tign, upp í framleiðslustjóra eða eitthvað slíkt, það þætti tilvalið, bæði vegna þess að mönnum sýndist ég hafa fulla burði til þess að passa í það starf, sem og hitt, að framleiðslustjórinn þeirra á Króknum er gamall félagi minn, bæði úr námi og vinnu. Þarna þótti komin afskaplega góð tenging á milli stöðvanna og þar með væntanlega ein leið til þess að flýta fyrir því að ná trausti á milli.
Nú líða vikurnar, forstöðumaður afurðastöðvarinnar á Króknum var mikið í húsinu hérna, starfaði í umboði framkvæmdastjóra, sem til bráðabirgða hafði verið skipaður Sigurjón Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri á Króknum. Forstöðumaðurinn, Gústi, kynnti sér húsið í þaula og reyndi að sjá út möguleika þess til eflingar starfseminni, gott mál. Eftir allar hans athuganir tjáði hann mér að hann sæi fyrir sér svipað fyrirkomulag og á Króknum, þar er hann stöðvarstjóri og beint undir hann heyrir framleiðslustjóri. Væri ég alveg örugglega maðurinn í starfið að hans mati og var ekki leiðinlegt að fá að heyra slíkt. Ég fór að taka þátt í því að skipuleggja fyrirkomulag innanhúss, a.m.k. koma fram með hugmyndir og teikningar frá sjálfum mér, afskaplega skemmtileg vinna, mínum tillögum vel tekið og ég því að styrkja mína stöðu, enda fékk ég nokkrum sinnum að heyra fyrrgreint, að ég væri klárlega maðurinn í djobbið.
Þegar leið fram á vor fannst mér að kannski mætti fara að huga að því að klára mín mál. Gústi róaði mig og sagði mér að ekki væri sniðugt að flana að neinu við svonalagað, alveg hárrétt athugað. Ennfremur sagði hann að ef ætti að drífa í þessu þá skyldi maður passa sig að samþykkja ekki strax fyrsta tilboð, svo kæmi kannski í ljós að álagið væri miklu meira en launin næðu að réttlæta, sömuleiðis þjóðráð.
Þá ákvað ég að bíða þangað til búið væri að ráða framkvæmdastjóra í húsið og klára þá málið. Í júlí tók síðan til starfa Magnús Freyr Jónsson, sem var kaupfélagsstjóri í Króksfjarðarnesi, en nú semsagt framkvæmdastjóri Sláturhúss KVH ehf. Leist mér strax ágætlega á gripinn og sá fyrir mér að gaman yrði að starfa með honum að eflingu fyrirtækisins. Hann var alveg sammála mér í því að ekki dygði lengur að draga það að ganga frá mínum málum og þegar ég fór í frí 10.júlí skyldi þetta klárað. Hann mætti svo til mín með ráðningarsamning þar sem fram kom starfsheitiðfína, framleiðslustjóri, og starfslýsing ein eigi alllítil.
Launin sem í boði voru uppfylltu engan veginn væntingar mínar (sáralítil hækkun) og voru í engu samræmi við starfið að mínu mati. Allt í lagi, auðvitað bjóða þeir lágt til að byrja með, ekkert óeðlilegt við það, hugsaði ég, nú er boltinn bara hjá mér, best að setja þá fram sínar óskir á móti. Nú ætlaði ég að fara að ráðum Gústa og gleypa ekki strax fyrsta tilboð. Ég ráðfærði mig við aðila hjá Verkstjórasambandinu, fór yfir samninginn með henni og skrifaði því næst niður hugleiðingar mínar, bæði varðandi launahugmyndir sem og aðra liði og rökstuddi allt saman. Þetta fannst mér allt ákaflega spennandi, hélt að hér væru að fara af stað samningaviðræður við fyrirtækið um kaup og kjör, eins og eðlilegt hlýtur að teljast.
Þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér.
Skagfirðingarnir sýndu nú sitt rétta andlit og í stað þess að koma með gagntilboð, allavega eitthvað til þess að koma til móts við mínar óskir, sýndu þeir nú fádæma óbilgirni og höfnuðu alfarið mínum tillögum. Punktur. Ég fékk auðvitað svolítið sjokk við þetta, hvað var orðið um “þú ert klárlega rétti maðurinn”? Ég setti nú fram tilboð af minni hálfu, ég skyldi, fyrir þessi laun sem þeir buðu, taka að mér þetta og þetta, þið skiljið. Fyrst ég var áður “rétti maðurinn” þá hlyti að vera einhver vilji til þess a.m.k. að halda mér í húsinu?
Nei takk, fyrst kom höfnun frá Sigurjóni, svo var málið tekið upp á stjórnarfundi og ákveðið að ég skyldi þá bara halda mínum launum og gamla starfi, milli línanna fannst mér ég lesa að ég skyldi bara vera þakklátur fyrir það að hreinlega fá að vera þarna.
Nú höfðu málin heldur betur þróast í aðrar áttir en maður átti von á.
Ég varð að vonum illa svekktur, og nú er ég með þeim ósköpum gerður að ég læt ekki bjóða mér svona framkomu, sagði ég því framkvæmdastjóranum að þá ætlaði ég bara að leita mér að annarri vinnu. Þetta var þriðjudaginn áttunda ágúst, sama dag og stjórnarfundurinn hafði verið haldinn. Hann ýjaði strax að þeirri hugmynd að leysa mig frá störfum, það væri full vinna að leita að vinnu og því gott að hafa þriggja mánaða uppsagnarfrest á launum við leitina. Sunnudaginn 13. ágúst boðaði hann mig svo á sinn fund og afhenti mér uppsagnarbréfið, uppsögnin tæki gildi þegar í stað og benti hann réttilega á að það væri engum greiði gerður með því að halda manni hundóánægðum inni á gólfi, það er hvorki gott fyrir fyrirtækið né starfsmanninn.
Eru spádómarnir að rætast?
Nú er ég því í rólegheitum að leita mér að vinnu, fyrst og fremst beinist leitin að vinnu á Akureyri, ekki langar mig suður og varla er hér í boði starf handa mér á "ofurlaunum", eða hvað?
Veit einhver kannski um vinnu handa manni?