Verzlun og viðskipti
Æskuminning! Enn ein æskuminningin!
Katrín mín, þetta er fyrir þig.
Þegar ég hef verið sirka níu til tíu ára fór ég út í kaupmennsku, sennilegast með æskuvininum honum Svenna. Við byggðum kofa (einn af þúsundum) í kartöflubeðinu heima á Skólavöllunum, og eitthvað þurfti nú að nota hann í. Enn höfðum við ekki prófað verslunarrekstur, þannig að beinast lá við að opna þarna sjoppu, til að reisa okkur ekki hurðarás um öxl, byrja smátt skiljiði.
Nú var byrjað á því að safna fjármagni, áttum við eflaust einhverjar krónur, sem við keyptum kúlur, möndlur og þess háttar fyrir. Lagerinn (kannski álíka magn og bland í poka fyrir fimmtíukall í dag) fórum við með í sjoppuna okkar og lýstum hana opna. Ekki leið á löngu áður en viðskiptavini tók að drífa að, jah, allavega áhugasama krakka, salan gekk nú frekar treglega. Það reyndar kom ekki að sök því álagningin var svo svívirðileg, tugir, ef ekki hundruð prósenta.
Smátt og smátt seldist lagerinn upp og við lokuðum sjoppunni rétt á meðan við skutumst til að gera meiri birgðakaup. Og nú skyldi heldur betur tekið stökk, við festum kaup á, hvorki meira né minna en heilu Conga! Ég minnist þess ekki að annað hafi verið keypt í þessarri innkaupaferð, enda ekkert smáræði þarna á ferð! Við komum síðan aftur í sjoppuna og opnuðum. Congað lá á afgreiðsluborðinu og beið eftir væntanlegum kaupanda. Ég man mjög vel að það hafði kostað sextíu krónur úti í búð en við ákváðum að það skyldi kosta hundrað krónur hjá okkur. Álagningin semsagt 67%, þokkalegt það. Við áttum í rauninni alls ekki von á því að takast að selja það á þessu verði, vorum bara hátt uppi af öllum gróðanum hingað til og ákváðum að sjá bara hvað gerðist.
Nú leið og beið og enginn treysti sér til þess að kaupa Conga. Brátt var kominn dágóður skari af krökkum sem beið í ofvæni eftir því að eitthvað gerðist.
Loks dró til tíðinda. Jói Haralds mætti á svæðið, hann hefur verið allavega tólf-þrettán ára, eldri en aðrir á staðnum, gekk yfirvegaður gegnum krakkaskarann, sem klofnaði líkt og rauðahafið fyrir Móse.
“Hvað kostar þetta?” sagði hann sallarólegur og benti á Congað. Ég leit niður og muldraði “hundraðkall” hálf skömmustulegur og bjó mig undir annaðhvort hæðnishlátur eða vanþóknunarhnuss frá Jóa. Nú fór að heyrast kliður frá krökkunum, sem höfðu snarþagnað þegar hann mætti á svæðið, en sá kliður hljóðnaði aftur þegar hann sagði glottandi “ætli maður kaupi þetta ekki bara.” Nú var okkur öllum lokið. Enn glottandi dró Jói upp úr vasa sínum brakandi hundraðkall og lagði á afgreiðsluborðið. Conganu tók hann við úr skjálfandi hendi minni, tók utanaf því og byrjaði að borða á staðnum, enn glottandi, en við krakkarnir störðum dáleiddir og opinmynntir á þessi ægilegu undur.
Hvað var hægt að gera meira? Var nokkurt vit í því að halda áfram verslunarrekstri? Nei, þarna ákvað ég að gera það sama og í handboltanum síðar, hætta á toppnum. Við höfðum byrjað með lítinn kofa og fimm-sex krónur, en eftir þessa ægilegu transaxjón með Conga stóðum við uppi með margfaldan gróða. Síðari tíma milljarðaviðskipti Íslenskra kaupahéðna og götustráka um gjörvallan heiminn blikna í samanburði við viðskiptin sem áttu sér stað í kartöflubeðinu að Skólavöllum tólf.