þriðjudagur, janúar 27

Verzlun og viðskipti

Æskuminning! Enn ein æskuminningin!

Katrín mín, þetta er fyrir þig.

Þegar ég hef verið sirka níu til tíu ára fór ég út í kaupmennsku, sennilegast með æskuvininum honum Svenna. Við byggðum kofa (einn af þúsundum) í kartöflubeðinu heima á Skólavöllunum, og eitthvað þurfti nú að nota hann í. Enn höfðum við ekki prófað verslunarrekstur, þannig að beinast lá við að opna þarna sjoppu, til að reisa okkur ekki hurðarás um öxl, byrja smátt skiljiði.

Nú var byrjað á því að safna fjármagni, áttum við eflaust einhverjar krónur, sem við keyptum kúlur, möndlur og þess háttar fyrir. Lagerinn (kannski álíka magn og bland í poka fyrir fimmtíukall í dag) fórum við með í sjoppuna okkar og lýstum hana opna. Ekki leið á löngu áður en viðskiptavini tók að drífa að, jah, allavega áhugasama krakka, salan gekk nú frekar treglega. Það reyndar kom ekki að sök því álagningin var svo svívirðileg, tugir, ef ekki hundruð prósenta.

Smátt og smátt seldist lagerinn upp og við lokuðum sjoppunni rétt á meðan við skutumst til að gera meiri birgðakaup. Og nú skyldi heldur betur tekið stökk, við festum kaup á, hvorki meira né minna en heilu Conga! Ég minnist þess ekki að annað hafi verið keypt í þessarri innkaupaferð, enda ekkert smáræði þarna á ferð! Við komum síðan aftur í sjoppuna og opnuðum. Congað lá á afgreiðsluborðinu og beið eftir væntanlegum kaupanda. Ég man mjög vel að það hafði kostað sextíu krónur úti í búð en við ákváðum að það skyldi kosta hundrað krónur hjá okkur. Álagningin semsagt 67%, þokkalegt það. Við áttum í rauninni alls ekki von á því að takast að selja það á þessu verði, vorum bara hátt uppi af öllum gróðanum hingað til og ákváðum að sjá bara hvað gerðist.

Nú leið og beið og enginn treysti sér til þess að kaupa Conga. Brátt var kominn dágóður skari af krökkum sem beið í ofvæni eftir því að eitthvað gerðist.
Loks dró til tíðinda. Jói Haralds mætti á svæðið, hann hefur verið allavega tólf-þrettán ára, eldri en aðrir á staðnum, gekk yfirvegaður gegnum krakkaskarann, sem klofnaði líkt og rauðahafið fyrir Móse.

“Hvað kostar þetta?” sagði hann sallarólegur og benti á Congað. Ég leit niður og muldraði “hundraðkall” hálf skömmustulegur og bjó mig undir annaðhvort hæðnishlátur eða vanþóknunarhnuss frá Jóa. Nú fór að heyrast kliður frá krökkunum, sem höfðu snarþagnað þegar hann mætti á svæðið, en sá kliður hljóðnaði aftur þegar hann sagði glottandi “ætli maður kaupi þetta ekki bara.” Nú var okkur öllum lokið. Enn glottandi dró Jói upp úr vasa sínum brakandi hundraðkall og lagði á afgreiðsluborðið. Conganu tók hann við úr skjálfandi hendi minni, tók utanaf því og byrjaði að borða á staðnum, enn glottandi, en við krakkarnir störðum dáleiddir og opinmynntir á þessi ægilegu undur.

Hvað var hægt að gera meira? Var nokkurt vit í því að halda áfram verslunarrekstri? Nei, þarna ákvað ég að gera það sama og í handboltanum síðar, hætta á toppnum. Við höfðum byrjað með lítinn kofa og fimm-sex krónur, en eftir þessa ægilegu transaxjón með Conga stóðum við uppi með margfaldan gróða. Síðari tíma milljarðaviðskipti Íslenskra kaupahéðna og götustráka um gjörvallan heiminn blikna í samanburði við viðskiptin sem áttu sér stað í kartöflubeðinu að Skólavöllum tólf.


sunnudagur, janúar 25

Góðan daaaag

Alltaf er gaman að blogga. Maður þyrfti að gera meira af slíku. Miklu meira. Miiiklu miklu meira. Svoooooona mikið.
Kannski.
Stundum.
Jammojá.
Seisei.
Ég er alveg tómur.
Tókuð þið eftir því kannski?

Bolti.
Sími.
Bók.
Soldið.
Kassi?

Bæ.

miðvikudagur, janúar 21

Og hér kemur hin

Já, nú er teljarinn kominn yfir 1300 og þá fáiði seinni söguna af gamla manninum í verðlaun.

Vessgú!!

Ég hef áður sagt ykkur frá gamla manninum sem orti hið áhrifamikla ljóð um herrana í löndunum. Nú ætla ég að segja ykkur frá því þegar hann fór á tónleika með pönkhljómsveitinni Crass í Laugardalshöll. Öllu heldur ætlar hann sjálfur að segja ykkur frá því. Ég hitti gamla manninn í yfirgefnu bílhræi niður við Slipp. Við tókum tal saman og barst það eðlilega að horfnum tímum.

“Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá og man tímana tvenna. Mér er í fersku minni það þegar ég ásamt vinum mínum gerði mér ferð til borgarinnar á tónleika. Það voru ekki bara einhvurjir tónleikar, heldur meiriháttar menningarsamkoma. Þar var aðalnúmer kvöldsins hljómsveitin Crass, sem gaf sig út fyrir að leika pönkskotna músík. Núnú, við vinirnir fórum með áætlunarbílnum til borgarinnar og komum þangað seinnipart dags. Á leiðinni dreyptum við á límonaði sem við höfðum útvegað okkur fyrir ferðina. Ferðin sóttist vel, enda vegir almennt orðnir nokkuð góðir þegar þetta var. Við vorum að vonum orðnir æði spenntir og vel stemmdir þegar við vorum komnir á staðinn, límonaðið átti þar nokkurn hlut að máli. Í takt við tíðarandann vorum við klæddir í dúnúlpur sem vóru algengar skjólflíkur á þessum tíma. En, bíðum nú við, kann einhver að segja, vóru piltarnir ekki á leið á pönktónleika? Hvað eru þeir að gera í slíkum klæðnaði? Væri ekki nær að vera klæddur í leður og með gaddaólar, eins og pönkstíllinn krafðist?
Hægan, hægan nú, segi ég. Við vorum nú reyndar með gaddaólar, en þar sem við vildum ekki vekja óþarfa athygli alvöru pönkara á því, höfðum við þær innanundir ermunum á dúnúlpunum! Snjallt, ekki satt?” Nú kímdi gamli maðurinn í barminn, greinilega á valdi minninganna.

“Nújæja, þar sem við sátum í Höllinni og innbyrtum pönkmenningu í stórum skömmtum, gerðist nokkuð sem hafði varanleg áhrif á okkur drengina. Að okkur vatt sér vígalegur pönkari í fullum skrúða og hann gerði sér lítið fyrir og kastaði upp, á gólfið fyrir framan okkur. Okkur setti hljóða, við störðum í þögulli andakt á þennan fánabera pönksins, þennan heilaga mann í okkar augum. Hann hélt síðan áfram lóni sínu um salinn, eflaust leitandi að fleiri piltum og stúlkum til að innvígja í söfnuðinn. Fyrst héldum við reyndar að hann væri bara með kveisu, en nú í seinni tíð er ég æ meira sannfærður um það að ofneysla límonaðis hafi þarna átt sök að máli.”

Þarna þagnaði gamli maðurinn, greinilega ofurliði borinn af minningum, enda bar hann greinileg merki þess að hafa sjálfur um dagana átt við límonaðivandamál að stríða.
Hér skildust síðan leiðir.

Hafnarfirði 19. feb. 03

Mundi



© Guðmundur Helgason 2003

Þetta c inni í hring hér að ofan er rosa töff!

þriðjudagur, janúar 20

Engin saga

Já, þið lásuð rétt, það verður engin saga birt í dag. Þið eruð svo óþekk að koma í heimsókn á síðuna mína. Skammistykkarbara!!

En skoðið nýja kommentið, geðveikt kúl. Og það sem meira er: það er réttur tími á því!!

Ég.

Er það komið?

mánudagur, janúar 19

Drasl dauðans

Já, ég hef komist að því að ekki er hægt að kommenta, nú vantar einhvern til þess að benda mér á nothæft system.

Ég

sunnudagur, janúar 18

Lífsmark

Hér er enginn, allavega fáir. Í bloggheimum sko. Maður ætti kannski að skrifa dramatíska sögu um örlög bloggverja?

Svo er það seinni sagan af gamla manninum, þegar hann fór á Crass-tónleika. Ég hef ákveðið að skella henni inn ef heimsóknir á síðuna fara yfir 1300 fyrir þriðjudagskvöld, þannig að nú verðið þið að vera dugleg að heimsækja mig, það er til mikils að vinna!

Annars bara bless í bili.

föstudagur, janúar 9

Jæja, hér kemur hún

Já, loksins er hún komin, gjöööriði svo veeeeeeeeeeeeeel!!



Þeir kalla mig Munda og það er allt í lagi. Mig langar að segja ykkur litla sögu sem gamall maður sagði mér fyrir nokkrum árum. Þessi saga tengist sögu rokksins órjúfandi böndum, þó atburðir í henni hafi ekki haft mikil áhrif á þróun þess.

Ég settist niður við opinn eld með gömlum manni eitt kvöld, dró upp úr pússi mínu límonaðiflösku og byrjaði að drekka úr henni.
Gamli maðurinn hóf frásögn sína: “Ég er gamall maður og lúinn, og hefi marga fjöruna sopið. Vorið sem ég fermdist, það mun hafa verið árið 1983 í bítlabænum Keflavík, keypti ég svokallað trommusett fyrir fermingarpeningana mína. Ég, ásamt vinum mínum, ætlaði að marka mín spor í tónlistarsöguna og leika músík í hljómsveit. Þetta var á þeim tíma þegar pönkið var að deyja og okkur langaði að vera með í fjörbrotum þess. Nújæja, við fengum æfingahúsnæði í JC húsinu og þar lágum við yfir hljóðfærunum og reyndum að skapa pönkmúsík. Mig langaði að semja krassandi pönktexta og fór í þeim tilgangi inn í annað herbergi. Þar hafði ég út um gluggann útsýni yfir bækistöðvar Ameríkuhers og ákvað að textinn yrði um stríðsbrölt og kjarnorkuvá.”
Gamli maðurinn gerði hlé á tali sínu til að koma frá sér langri hóstarunu sem endaði í hálfgerðri dauðahryglu. Orðalaust rétti ég honum límonaðiflöskuna, hann tók við henni skjálfandi hendi og sagði: “Blessi þig sonur.”
“Hvert var ég nú kominn?” sagði hann. “ Já, kjarnorkan lagsi, hún er ekkert lamb að leika sér við. Ég fór nú að reyna að koma mér í rétt hugarástand, reyndi að kalla fram úr hugskoti mínu myndir af sveppinum, sá fyrir mér grillaða Japani og fleira í þeim dúr. Brátt var hugur minn orðinn svellandi af heilagri reiði pönkarans. Titrandi af vanmáttugri bræði tók ég upp penna og byrjaði að skrifa, ég réð ekki neitt við neitt, orðin gusuðust á blaðið og eftir fáeinar mínútur rétti ég úr mér skjálfandi og móður. Og sjá, ég hafði skapað ódauðlegt listaverk! Ég renndi augunum yfir blaðið og fann fyrir kennd sem ég bar kennsl á aftur löngu síðar er ég varð faðir í fyrsta sinn. Svona hljóðar nú þetta ljóð:

Herrarnir í löndunum
Sem ráða mestu í þessum heimi
Eru sí og æ að keppast um
Bestu flaugar úti í geimi

Varpa niður sprengju
Allt er farið
Líta upp og sjá að
Allt er marið

Hver er þá tilgangurinn með
Þessum sprengjum?
Væri ekki nær að
Halda okkar engjum?”

Það varð dauðaþögn. Ekkert heyrðist nema snarkið í eldinum. Logarnir dönsuðu á andliti gamla mannsins og endurköstuðust af klettaveggnum. Ég var búinn að missa áhugann á límonaðiflöskunni. Ég fann streng bifast í brjósti mér og fékk kökk í háls.
“Aldrei síðan hefi ég verið snortinn af listagyðjunni á slíkan hátt” sagði gamli maðurinn titrandi röddu og lítið tár lak niður hrukkótta kinn. Ég ákvað að gefa honum restina úr límonaðiflöskunni.

Svona lauk nú þeirri frásögn, en sá gamli sagði mér frá öðru atviki sem henti hann og vini hans er þeir fóru á tónleika með hljómsveitinni Crass og skal ég með ánægju birta hana ef þið óskið.

Ykkar einlægur,
Mundi.

P.S. Þess má til gamans geta að síðan þetta var hef ég ekki drukkið límonaði.

fimmtudagur, janúar 8

Æjæjæjæ...

Þarna klikkaði ég heldur betur, ussussuss!
Ég var búinn að lofa sögunni um herrana í löndunum en er svo ekkert með hana í tölvunni hér fyrir austan. Ókei, ég skelli henni bara inn um helgina í staðinn.

Ég er búinn að vera latur til bloggs í þessari viku vegna þess að ég fór að spila skjótuleik í tölvunni á kvöldin og varð húkkd. Það er að mestu gengið yfir, ég verð svo fljótt leiður á sumu. Er það ekki bara merki um yfirburðagreind? Jú, ég held það.

Bráðum förum við að sjá nettan lordara, það verður gaman.
Svo kannski matur og bjór á eftir, það verður gaman.
Hverjir eiga eftir að sjá nettan lordara?

Er alveg þurr.
Bæ.

sunnudagur, janúar 4

Númer 1000!!!

Góðir Íslendingar og nærsveitarmenn!

Í dag eru ákveðin tímamót í mínu lífi. Ég sit klökkur við tölvu og rita þakkir til ykkar allra sem hafið heimsótt mig á þessa síðu og þeytt teljara upp í og yfir eitt þúsund.
Nú bíður númer eitt þúsund spenntur eftir verðlaunum og eru þau eftirfarandi:

Ég hefi ákveðið að númer eitt þúsund fari í pott, frekar stóran í þessu tilfelli, og malli þar við vægan hita, og gefizt þannig tækifæri til þess að verða númer tvö þúsund!

Og nú er bara að vera dugleg að kíkja á síðu!

Einnig hefi ég ákveðið að birta í þessari viku smásögu, byggða á sönnum atburðum, er nefnizt "Herrarnir í löndunum." Ritaði ég sögu þá eftir frásögn vinar sem ég hefi unnið talsvert með.

Og aftur: nú er bara að vera dugleg að kíkja á síðu!

YZ segirókeibæ.

föstudagur, janúar 2

Úúúúúúúú........

Hóhó og híhí!
Næssstum því ÞÚSUND!

Ég verð að fara að hugsa upp verðlaun. Kannski hvammi verði nr. 1000 eins og á zetorzíðu?

Hraði og spenna frá upphafi til enda.
Nóg til, gjörið svo vel ókeibæ.

Free Web Site Counter
FreeLogs.com