þriðjudagur, október 6

Ár

Jahérna, bara komið annað ár!

Fór í stóðréttir, það var fínt, lentum í blindbyl í fjallinu, Stormur ferlega klikkaður allan tímann, það mátti aldrei stoppa, þá fór hann að hoppa..... og skoppa....

Á heimleiðinni skipti ég um hest, var að drepast í handleggjunum af því að toga í tauminn, Stormur vildi bara æða áfram og vera fyrstur. Ég var með núningssár á fingri eftir tauminn.

Ekkert partí um kvöldið hjá mér, fór heim og eyddi kvöldinu í faðmi fjölskyldunnar, sem var stödd fyrir norðan.

Otakk, sjáumst að ári!

sunnudagur, október 5

Reiðmaðurinn

Ég ákvað að sleppa æskuminningu að sinni og hlýða Þorbjörgu.
Hér ætla ég því að segja ykkur frá nýafstöðnum stóðréttum í Þverárrétt.

Ég er nefnilega orðinn hestamaður, sjáiði til, (á nú samt engan hest, bara reiðbuxur og hanska) og þáði því með þökkum boð þeirra í Böðvarshólum, að fara ríðandi með þeim frá Breiðabólstað, í réttirnar, semsagt smala fjallið (ef svo má að orði komast). Reyndar voru svo margir smalar að menn hefðu getað haldist í hendur og fínkembt þannig fjallið.
En allavega, ég fékk þarna kærkomið tækifæri til að taka með mér rommfleyginn sem mér tókst ekki að komast nema niðurfyrir axlir í, við sauðfjársmölun hálfum mánuði fyrr.
Það var svo eiginlega ekki fyrr en þegar við vorum að reka stóðið heim að afloknum réttunum, sem gamanið hófst fyrir alvöru. Um miðbik leiðarinnar kynntist ég því til dæmis hvernig er að drekka bjór úr dós á fleygiferð á hesti, Ingi lét mig fá bjór, við opnuðum hvor sinn og svo var bara að reyna að hitta á bjórinntakið (munninn). Á milli sopanna hélt ég dósinni eins langt út frá líkamanum eins og ég gat, dósin hristist nefnilega svo mikið að bjórinn freyddi þvílík ósköp, var bara eins og brúðarslör í kjölfarið á manni.
Nújæja, eftir síðasta stopp, minnir mig, þá vorum við orðin öftust, ég, Þorbjörg og Anna Dröfn, og þá vildi Þorbjörg fara að syngja. Ég lét til leiðast og við sungum hástöfum, en Anna Dröfn hlustaði í hljóðri aðdáun, og til að gæta jafnræðis með okkur Þorbjörgu, söng ég eins illa og mér var unnt :o)

Síðasta spölinn fór hluti mannskapsins á undan heim afleggjarann með aðal stóðið, við hin biðum um stund, og rákum svo heim þrjá hesta sem áttu að fara inn. Þegar komið var næstum því heim að húsunum, ákváðu þessir þrír að sennilega væri nú skemmtilegra að fara eitthvert annað, og tóku því strojið út á tún, eftir krókaleiðum þó. Tveir þeirra voru á leið út í buskann þegar við þeystum á eftir þeim, Jón Ben og ég. Jón er sýnu vanari hestamaður en ég, sem sýndi sig í því að eitt augnablik fór hann hraðar en merin sem hann var á, sveif sem sagt fram af henni í tignarlegum boga, en sleppti þó aldrei taumnum, lenti einhvernveginn (ég sá það ekki nógu vel) og dreif sig á bak med det samme. Þó snöggur hafi hann verið, var samt dýrmætur tími farinn í þennan háloftadans, þannig að ég hentist fram úr honum á honum Stormi, við spýttumst eftir túninu og náðum að komast fyrir óþekktarormana tvo. Þorbjörg sagði síðar frá því að mannskapurinn hafi fylgst með okkur Stormi, með nagandi áhyggjur af því að ég færi sömu leið og Jón. Konni sagðist nú samt hafa séð að ég hallaði bara mátulega mikið í beygjunum.

Ég er nefnilega orðinn svo svakalega mikill reiðmaður, sjáiði til....

miðvikudagur, september 17

Fimm dagar

Já gott fólk, nú eru fimm dagar frá síðasta bloggi.
Ég er í óhemju mikilli framför, því verður ekki neitað. Það er í raun fyrir tilstilli Kristjönu sem ég blogga svona fljótt aftur, annars ætlaði ég bara að bíða í tvö ár....

Ég er að velta því fyrir mér á næstunni að henda inn eins og einni æskuminningu, hvað segiði um það? Svo er nú bloggið mitt að verða frægt, mamma búin að fá leyfi hjá mér til að birta eitthvað gamalt og gott af síðunni í næsta Fréttabúa (sem er héraðsfréttablað í Vestur-Skaftafellssýslu, sem kemur núorðið bara út einu sinni á ári, fyrir jól).

Jæja, æskuminningin kemur fljótlega, verið bara þolinmóð, þangað til kveður Yfirzetor.....

föstudagur, september 12

Tvö ár

Jæja, komiði öll sæl og blessuð.

Sjálfsagt ekki margir sem kíkja á blogsíðuna mína í dag, en tilefni þessarar færslu er tveggja ára bloggþögn mín.

Síðast bloggaði ég þann 12.sept. 2006, svo leið og beið og allt í einu áttaði ég mig á því að ár var að verða liðið, þá ákvað ég að blogga á árs afmælinu, en mundi ekki eftir því fyrr en daginn eftir, þann þrettánda. Þá var ekki um annað að ræða en að bíða í ár til viðbótar, mínir nánustu hafa síðan fylgst með mér og í gær fékk ég póst frá mömmu, þar sem ég var minntur á stóra daginn.

En, semsagt, dömur mínar og herrar, hér er það, tveggja ára afmælisblogg, og það reynist bara vera sjálfhverft og hundleiðinlegt, fuss og svei.....

Verð að gera betur, á morgun fer ég í göngur (sem er reyndar ofrausn að kalla því nafni, ég fer bara áleiðis upp í Vatnsnesfjall í fyrirstöðu) og mun því ekki blogga á morgun.
Auk þess er ég líka að bíða eftir því að andinn komi yfir mig, þangað til vísa ég bara í gamlar færslur, fariði nú bara að grafa, byrjið í nóv.2003 og vinnið ykkur áfram, margt mjög fyndið þar á ferð, þó ég segi sjálfur frá.
Já, nú fékk ég hugmynd: skoðiði gömlu bloggin mín og segið svo frá í kommentum hvað ykkur finnst uppáhalds og fyndnast, gerið bara koppípeist, svo ekki fari á milli mála.

Vá, sjálfhverfnin alveg að fara með mig núna.....

Geriði þetta samt....
Svo fyrirskipar Yfirzetor.

þriðjudagur, september 12

Meira af syni mínum

Áðan spurði Daníel hvort hann mætti hvísla svolitlu að mér. Taldi ég það auðsótt mál og hallaði mér niður í hans höfuðhæð og hann sagði stundarhátt í áttina að eyranu á mér (þannig hvíslar hann):
-Ég faldi hnetupokann hennar mömmu (mamman var að gæða sér á salthnetum)
-Hvar faldirðu þær?
-Undir rúminu ykkar.
-Já, og afhverju faldirðu þær?
-Mamma bað mig um það (væntanlega búin að éta sér til óbóta af salthnetum)
-Jæja, gott hjá þér, sagði ég þá.
-Þú mátt ekki segja mömmu.
-Nei, auðvitað ekki.

Svo kom þessi undarlega fullyrðing:
-Nú veist þú ekki hvar þær eru!
-Jú, ég veit það alveg, svaraði ég.
Smá þögn, svo spyr hann:
-Hvernig veistu það?
-Nú, þú varst að segja mér það!
Önnur smá þögn.

-Af hverju gerði ég það?

laugardagur, september 9

Dýrin í Hálsaskógi, taka tvö

Við Daníel vorum að elda matinn eitt kvöldið í vikunni, þegar hann sagði mér í óspurðum fréttum:

"Bakarameistarinn sagði við afa sinn þegar hann átti að baka piparkökur að það ætti að setja einn kílómetra af sykri, en hann setti TVO kílómetra af sykri!"

þriðjudagur, september 5

ERUM VIÐ EKKI HEPPIN???

Jah...
Þar skall hurð nærri hælum lagsm....
Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS á Króknum, sagði um síðustu helgi á spjalli við mann héðan af staðnum að við værum bara skrambi heppin að þeir (KS) skyldu hafa komið hingað, því annars hefðu þeir bara farið í Búðardal!

Ég þori bara ekki að hugsa þá hugsun til enda!!!!!

Einhverjir sama sinnis?

Free Web Site Counter
FreeLogs.com