Á nýju ári
Ég ætlaði að skrifa svolítið rosalegt en hætti við, það tengist dálitlu sem við Sigurvald ræddum í gærkvöldi og þótti ákaflega sniðugt þá.
Ekki eins sniðugt núna.
Og þó.
Heyrumst, gleðilegt ár!!!
Nú...... Mundi!
Ég ætlaði að skrifa svolítið rosalegt en hætti við, það tengist dálitlu sem við Sigurvald ræddum í gærkvöldi og þótti ákaflega sniðugt þá.
Ekki eins sniðugt núna.
Og þó.
Heyrumst, gleðilegt ár!!!
Jæja kæru lesendur, ferðin mikla er loks á enda. Er það með eftirsjá sem ég legg hér inn lokahluta þessa sálfræðitryllis, það eina sem vantar í þessa frásögn er væn gusa af blóði.
Hír itt komms.
Og í dag er miðvikudagur. Í dag hringdi kona frá, jújú, Húsasmiðjunni, og sagðist, alvarleg í bragði, vera með umsókn um reikningsviðskipti með sjálfskuldarábyrgð og nefndi til sögunnar vinkonuna sem hafði skrifað uppá fyrir okkur. Ég hummaði samþykkjandi, afskaplega þurr á manninn, og loks bar hún upp erindið: -Þú hefur ekki skrifað sjálfur undir! sagði hún ásakandi. Í stað þess að sleppa mér algjörlega sagðist ég, enn þurrari á manninn, hafa skrifað nafnið mitt á umsóknina eins og ég var beðinn um. –Já það er ekki nóg, þú áttir líka að skrifa undir. –Og skyldu þá þínir menn ekki hafa átt að passa upp á það? spurði ég hryssingslega. –Jú, auðvitað, sagði hún, -en, lastu ekki samninginn? Þaaað varð ég að játa að ég hafði ekki gert, og ekki var það sérlega skynsamlegt, það játa ég líka, en áttu ekki blessaðir mennirnir á Akureyri að passa það samt sem áður að öllum formsatriðum væri fullnægt? Ég held að þeir hafi reyndar tekið eftir þessu en bara ekki lagt í að hringja í mig og biðja mig að koma og skrifa nafnið mitt á þartilgerða línu. Svo pirraður hafði ég verið orðinn þegar á laugardeginum áður.
Um kvöldið, þennan sama miððvikudag, frekar seint, var dinglað hér á Melaveginum. Og viti menn! Voru ekki steinarnir bara komnir, með Adda á Bálkastöðum!
Hann er ekki að keyra fyrir Flytjanda, þannig að þeir þarna fyrir sunnan hafa brugðist við reiðilestri reiða mannsins á Hvammstanga og fundið næsta bíl sem færi norður. Þessir kjánalingar hafa sennilega ekki vitað að þetta breytti ekki neinu, Flytjandabíllinn kom á sirkabát sama tíma og við vorum engu bættari.
Fylgiseðillinn var nokkuð fyndinn, á honum, sem var stílaður á mig að sjálfsögðu, voru taldir upp téðir glersteinar, mósaíkflísar og, hvað haldiði? Jú, að sjálfsögðu 26 tommu reiðhjól, en ekki hvað!? Nú var þessi skrípaleikur farinn að taka á sig æ furðulegri myndir. Reyndar hef ég hvorki séð tangur né tetur af þessu blessaða reiðhjóli, hefði samt alveg verið sáttur við að fá svoleiðis í bætur fyrir allt vesenið og þvæluna frem og tilbage.
Nú held ég að ég sé búinn að segja nokkurnveginn allt sem hægt er að segja um þetta dæmalausa mál, dularfullu glersteinarnir, væri kannski ágætur titill á þessa frásögn. Það væri kannski gaman að fá tillögur frá ykkur um titil?
En, hvað hefur þessi frásögn annars kennt okkur kæru lesendur? Jú-
Húsasmiðjan –EKKERT MÁL!
Amen.
Í dag var ég í vinnunni. Það var gaman.
Þorvaldur Halldórsson er á sjó. Það er gaman.
Nú kemur sexti hluti. Það er gaman.
Í dag er þriðjudagur og mín heittelskaða fór spennt í pakkhúsið til að sækja kubba og flísar, bíllinn kom í gærkvöldi, gaman gaman. Þegar hún var búin þar hringdi hún í mig og sagði –gettu hvað. Jú, kæri lesandi, AUÐVITAÐ komu helvítis kubbarnir ekki. Og heldur ekki flísarnar. Mín bað mig að hringja í Húsasmiðjuna og vera reiður, hún nefnilega kann það ekki. Að vera reið við annað fólk meina ég.
Annað fólk en mig meina ég.
Ég hringdi á Smáratorg og talaði við manninn frá laugardeginum, ég var reyndar ekkert voðalega reiður og talaði bara nokkuð eðlilega. Maðurinn varð auðvitað hissa og sagðist hafa sent pöntunina frá sér strax. Úr varð að hann skyldi hringja á lagerinn (dótið var nefnilega þar og skyldi þaðan koma), og hringja síðan í mig og segja mér stöðu mála. Ekki man ég hvort ég þakkaði fyrir í lok símtalsins, eins og ég er vanur, enda kurteis með afbrigðum. Indæll og próper ungur maður.
Um það bil þremur klukkustundum síðar, þegar ekkert var farið að heyrast frá manninum, hringdi ég bara sjálfur á lagerinn fyrir sunnan og þar sagði mér ungur maður að varan hefði farið frá sér þá um morguninn (þriðjudags altsvo og bíllinn farinn norður fyrir tæpum sólarhring). –Af hverju ekki fyrr, spurði ég og farið að þykkna talsvert í mér. –Nú, þú pantaðir í gær!
Nú var mér nóg boðið, ég sagði –ég pantaði þetta á laugardaginn væni minn og nú er ég búinn að fá algjörlega nóg af ömurlegri þjónustu hjá Húsasmiðjunni og nú skaltu senda mér þetta í einum logandi hvelli mér er alveg sama hvernig og mér dettur ekki í hug að borga flutninginn! Aumingjans piltinum var brugðið, hann pípti eitthvað sem svo að það yrði að redda þessu, tók ég urrandi undir það og bætti við öðru “væni minn”, bara svona til að láta hann virkilega finna hvað hann væri vesæll og smár.
Ekki á ég von á því að draslið komi samt fyrr en á fimmtudag, þorláksmessu, þannig að sturtubotninn mun bara gapa framan í okkur, gugginn og steypugrár, yfir jólin.
Styttist óðum, allt tekur enda um síðir, í upphafi skyldi endinn skoða, hætta skal leik þá hæst hann stendur, endalokin nálgast!
Næsta, og jafnframt síðasta færsla verður framkvæmd þegar fimm hundruð þúsund manns verða búnir að heimsækja síðuna, þannig að nú er um að gera að vera dugleg krakkar mínir!
Í dag er annar dagur jóla. Það er gaman. Ekkert er að frétta. Nú kemur fimmti hluti/þáttur.
Hann er svolítið stuttur.
Vessgú.
Nú hringdi ég í Smáratorg og keypti kubba og flísar útí nýstofnaðan reikning. Sagði ég manninum þar að senda kubbana með bíl norður á Hvammstanga, en mágkona mín skyldi koma innan skamms og sækja flísarnar, við ætluðum strax að byrja að leggja þær í sturtubotninn er heim kæmi. –Já, ekkert mál, segðu henni bara að spyrja eftir mér, sagði maðurinn og kvaðst ég mundu gera það. Kvöddumst við nú með virktum og lögðum á. Þessu næst höfðum við samband við mína ástkæru mágkonu og fór hún med det samme að sækja flísarnar.
Smáratorg síðdegis á laugardegi.
Þegar búið var að reyna að kalla manninn upp í tíu mínútur gafst hún upp og fór.
Næst fórum við í BYKO að kaupa fleiri glerkubba. Nú, afhverju keyptuð þið ekki bara fleiri kubba í Húsasmiðjunni, spyr fólk sjálfsagt. Vegna þess, kæri lesandi, að fyrir utan það að veita heimsins lélegustu þjónustu, er Húsasmiðjan algjör okurbúlla. Téðir glerkubbar kosta 398 krónur stykkið þar, en, og haltu þér fast, 273 krónur í BYKO. Við keyptum í Húsasmiðjunni eingöngu fyrir þá fjármuni sem við áttum inneign fyrir þar, og ekki krónu meir. Í BYKO var maður tilbúinn að aðstoða okkur þegar við mættum á staðinn og leiðbeindi hann okkur í gegnum upphleðslu á glerkubbum, lét okkur í té sérstaka steypu á milli og krossa, eins og við flísalagningu. Þvílíkur munur.
Jólin eru komin og allt á kafi. Í gærkvöldi (aðfangadagskvöld) fórum við í tvo björgunarleiðangra á frábæra bílnum okkar, hann er óstöðvandi í nýföllnum snjó.
En, áfram heldur hryllingurinn. Ævintýri á aðventu.
Leið okkar lá að nýju í Húsasmiðjuna, í þetta sinn með uppáskrift vinkonu okkar, sem var svo lánsöm að eiga íbúð, á reikningsumsókninni. Þar vorum við spurð hvort karið væri komið suður. Jújú, það hélt ég nú, að vísu var þetta nú ekki alveg eins og búið var að plana, þeir ætla bara að senda inneignarnótuna til mín í pósti. Eitthvað ætlaði blessaður maðurinn að gera vesen úr því, en þá var mér alveg nóg boðið, ég byrsti mig við manninn og sagði hvass að ég vildi fara að klára þetta helvítis mál, nokkurn veginn orðrétt. Þá kipptist maðurinn við, hann varð allur hinn alúðlegasti og sagði mjúkum rómi –jájá við kippum þessu nú í lag í rólegheitum. Með það sendi hann mig bara fram í búð að versla, sá að hér var alvara á ferðum.
Aahhhhh..... haldiði að það sé munur, best að fara í gólfefnadeildina og græja þessa kubba og flísar í fljótheitum, vorum búin að velja alltsaman daginn áður.
Fólkið á undan okkur var búið að bíða í hálftíma eftir afgreiðslu. Þegar röðin loksins kom að okkur reyndist pilturinn sem var að afgreiða, ekki hafa hundsvit á því sem við ætluðum að fá. Til dæmis: glerkubbarnir sem við ætluðum að fá eru hlaðnir þannig að sérstök steypa er höfð á milli, ca. einn sentimetri á þykkt. Þegar við spurðum hann semsagt hvað ætti að vera á milli, leit hann á okkur með einlægni í augum og sagði: -ekkert, þið bara límið kubbana saman! –Nújæja? Og með hverju? –Jah, þaað veit ég ekki, var svarið
Að sjálfsögðu var ekkert til af því sem við ætluðum að fá, hvorki flísarnar né kubbarnir, -nei það er allt bara á lagernum fyrir sunnan, sagði hann. Við vorum farin að andvarpa frösum á borð við –gat svosem verið! Og nú var farið að fara svolítið um hann. Skjálfandi fingrum fór hann að reyna að finna í tölvunni hvort þetta væri til í einhverri búðinni fyrir sunnan, lagerinn þar að sjálfsögðu lokaður. Jú, hvorttveggja til á Smáratorgi. Sigrún hringdi í systur sína sem var einmitt í jólagjafaleiðangri í Reykjavík. Hún var til í að fara á Smáratorg og taka allavega eitthvað þar, en það yrði að gerast fljótt, því heiðin væri orðin illfær og gæti jafnvel lokast. Nú hringdi síminn minn og þar reyndist vera baðkarsmaðurinn sem ég hafði byrst mig við, að tilkynna mér að reikningurinn væri tilbúinn og búið að leggja andvirði baðkarsins inn á hann. Ég man ekki hvort ég þakkaði honum sérstaklega fyrir. Við kvöddum sveittan og stamandi afgreiðsludrenginn í gólfefnunum og strunsuðum út.
Gott fólk, nú fer að líða að lokum, einungis þrír hlutar eftir!
Meira á morgun.
Í dag er aðfangadagur. Það er gaman. Og nú fáið þið þriðja hluta jólahrollvekjunnar. Það er gaman. Ég veit ekki hvað ég á að segja næst, bara gleðileg jól öllsömul, eða bæði tvö eða eitthvað.
Við feðgarnir komum svo norður og hittum mömmuna. Seinnipartinn fór fjölskyldan í Húsasmiðjuna, um svipað leyti og baðkarið fór með Konnson frá Hvammstanga, áleiðis suður. Jæjjja, við fundum mann sem fór með okkur inn á skrifstofu til að stofna viðskiptareikning. Þar skrifaði ég nafn, kennitölu, heimili og þess háttar á þartilgert eyðublað. -Og förum við svo bara að versla sisvona? spurði ég í barnaskap mínum. -Ha, neeeei, nú á eftir að fylla út bakhliðina á blaðinu, ertu ekki annars fasteignareigandi? spurði maðurinn á móti.-Nei, hva, þarf þess? -Jáá, þaaað þarf væni minn, eða að fá einhvern fasteignareiganda til þess að skrifa upp á fyrir ykkur.
-HVAÐ?!
–Öðruvísi getið þið ekki stundað reikningsviðskipti hér. –Þurfum við semsagt að fara núna og reyna að finna einhvern fasteignareiganda til að skrifa uppá þetta fyrir okkur, tvöhundruð kílómetra frá okkar heimabyggð? –Jájá, annað er ekki inni í myndinni.
Það voru beygð hjónaleysi sem gengu með litla drenginn sinn út úr Húsasmiðjunni á Akureyri þennan föstudagseftirmiðdag, ekki með glerkubba á baðið, ekki með mósaíkflísar í sturtubotninn, heldur hálfgerða eftirlíkingu af risastóru skuldabréfi frá einhverri meiriháttar fjármálastofnun í hendinni, og nú skyldi reyna að fá einhvern á Akureyri til að leggja fasteignina sína að veði til þess að við gætum skipt á baðkari og flísum, seytján þúsund krónum að andvirði.
Víkur nú sögunni suður.Morguninn eftir flutti áðurnefndur skábróðir minn, sem við skulum bara kalla X, baðkarið í Skútuvoginn fyrir sunnan. Ojæja, ágætt, þarna verður þó varla nokkur töf, ekki vil ég nú leggja slíkt á hann X blessaðan, hann er nú aldeilis búinn að gera gott. Ég varð eiginlega ekkert hissa þegar hann hringdi og sagði mér að ég þyrfti að tala við þann sem var að taka á móti karinu. Það var að sjálfsögðu ekki sá sem vissi allt um málið, ónei, auðvitað var hann ekki að vinna, og nú þurfti ég að reyna að koma manneskjunni sem ég talaði við (ég er ekki ennþá viss um hvort það var karl eða kona) í skilning um það hvernig halda skyldi á málunum. Planið var að leggja andvirði karsins inn á reikninginn okkar í Húsasmiðjunni, sem að sjálfsögðu var ekki orðinn til þegar þarna var komið sögu. -Neinei, ég átti bara að fá senda inneignarnótu með pósti fyrst svo var. -Já en, geturðu ekki geymt hana hjá þér í klukkutíma eða svo, þangað til ég er búinn að stofna reikninginn, og lagt hana þá inn á hann? Nei, einhvern veginn virtist það vera honum/henni ofviða, og þegar viðkomandi hringdi í annað sinn gafst ég upp og sagði honum/henni bara að senda það þá með pósti, ég skyldi bara fara í Húsasmiðjuna, stofna þennan djöfulsins reikning, versla og fara seinna með inneignarnótuna til að leggja inn á hann.
Er þetta nokkuð orðið þreytandi rýjurnar mínar?
Á ég kannsi að hætta þessu?
Eða viljið þið framhaldið á morgun?
Nóg eftir!
Góðir lesendur.
Ég er hrærður yfir þeim viðtökum sem frásögnin mín hefur hlotið og vil ég þakka ykkur af heilum hug. Nú hef ég komist að því að þetta er algjört beisik kommentakerfi sem mín elskulegust hefir útvegað mér, og komast ekki fleiri komment en fimm inn á það. En teljarann útvegaði ég mér sjálfur og taldi hann á örfáum klukkustundum upp í átta! (þar af fór ég sjálfur fimm sinnum inn á síðuna að gá.)
En, nóg um það, nú kemur annar hluti hrollvekjunnar minnar, sem er dagsönn.
Svo vonast ég til þess að sjá ykkur sem flezt á zkötuhlaðborði á Þinghúsinu í kvöld!
Gjörið svo vel.
Ég hringdi í Húsasmiðjuna fyrir norðan og fékk þar að vita að ef ég vildi kaupa styttra kar skyldi ég skila þessu og punga út þrettán þúsund kalli til viðbótar, styttri kör eru nefnilega dýrari. Er ég spurði fékk ég þó að vita það að ef ég vildi skila karinu þá væri ekki útilokað fyrir mig að fá það endurgreitt, þ.e. ef ekkert sæi á því. Með það kvaddi ég í bili og hringdi því næst í BYKO. Jújú, þar gæti ég fengið baðkar uppá einn og sextíu fyrir tuttugu þúsund kall, með því að stofna reikning og leggja upphæðina inn á hann. Nó probblemm.
Aftur hringdi ég í Húsasmiðjuna og sagði að ég gæti fengið kar annarstaðar fyrir tuttugu þúsund. Núna hefði hver einasti sölumaður með sjálfsvirðingu komið með gagntilboð. Neeeei, ekki hjá Húsasmiðjunni minn kæri, að auki var nú skyndilega ekki lengur inni í myndinni að fá endurgreitt, heldur yrði ég að skila og skipta. Ekki vildi ég fara að borga tæpan þrjátíu þúsund kall fyrir baðkar sem ég gæti fengið annarstaðar fyrir tuttugu, þó svo að til kæmi starfsmannaafsláttur. Því ákváðum við Sigrún að skila karinu og taka út glersteina í staðinn, til að hlaða upp sturtuvegg með, það var líka á verkefnalistanum. Það átti ekki að vera neitt tiltökumál, bara að stofna viðskiptareikning og andvirði karsins yrði lagt inn á hann.
Jæja, þá væri bara að koma frá sér karinu. Ókei, best að senda það bara suður með Flytjanda, ekki borgaði sig að láta þá fara með það til Akureyrar, því þá hefði þurft að flytja það fyrst suður á stöðina í Klettagörðum, og þaðan norður. Jújú, suður fór það, ég þurfti reyndar sjálfur að redda flutningi frá stöðinni og í Skútuvog, það leysti skábróðir minn fyrir sunnan, sem býr svo vel að eiga sendibíl.
Á föstudeginum lá leiðin til Akureyrar að sækja Sigrúnu og glerkubbana. Og tvo fermetra af mósaíkflísum í sturtubotninn. Á leiðinni tókst mér eftir ítrakaðar tilraunir að ná sambandi við mann fyrir sunnan í Húsasmiðjunni þar. Sá maður vissi allt um málið, kollegi hans fyrir norðan var búinn að láta hann vita og þeir búnir að koma sér saman um það hvernig haga skyldi málum. -Jæja, hugsaði ég, gæfan bara farin að snúast mér í hag! Ó, hversu rangt ég hafði fyrir mér!
Er þetta nokkuð farið að verða spennandi?
Framhald á morgun, aðfangadag, klukkan 15:00
Jæææææjjjjjaaaa!
Þá er komið að því!
Ég get ekki beðið lengur, og hef því ákveðið að setja inn fyrsta hluta sannrar framhaldssögu, sem enn er að gerast! Hugsið ykkur, nú fáið þið tækifæri til þess að eiga hlutdeild í mínu lífi.
Ég ætla ekki að hafa formálann lengri, bara, gaman að sjá ykkur öll aftur!
Gjööööriði svo veeeel!
Hér verður greint frá aldeilis ótrúlegum atburðum sem áttu sér stað síðustu helgina fyrir jól. Þannig var að við stóðum í endurbótum á baðherberginu hjá tengdapápa og ætluðum meðal annars að skipta um baðkar. Elskulegt ástardjásnið mitt mældi út gamla karið eina helgina og fór með málin í Húsasmiðjuna á Akureyri. Þar valdi hún baðkar sem kostaði tæpan seytján þúsund kall, og nú ætluðum við að nýta okkur samböndin okkar, vinur bróður míns er starfsmaður Húsasmiðjunnar fyrir sunnan og með því að kaupa í gegnum kennitöluna hans ætti að fást 15% afsláttur. Þetta hefur aldrei verið neitt tiltökumál hingað til, en núna rakst Sigrún mín á lítilsháttar örðu á veginum þeim. Starfsmaðurinn á Akureyri var tregur til þess að framkvæma færsluna með þessum hætti, en bauð Sigrúnu að stofna einhverskonar skyndireikning þannig að hægt væri að ná sama afslætti. Gekk þetta allt eftir, fékk hún svokallaðan starfsmannaafslátt uppá 15% og einhvern lítilsháttar staðgreiðsluafslátt að auki, ágætis mál.
Nú liðu tveir-þrír dagar og baðkarið kom hingað á Hvammstanga á fimmtudegi. Bar ég það beint inn í stofu. Eitthvað fannst mér lengdin grunsamleg, bar ég málband eitt að og bar saman lengdirnar á körunum, því gamla og því nýja. Ekki bar á öðru, nýja karið var tíu sentimetrum lengra, og myndi ekki með nokkru móti komast þar sem því var ætlaður staður. Hafði mín heittelskaða ekki mælt rétt og voru þetta afleiðingarnar. Hélt ég. Því þetta var bara byrjunin á þeirri hryllilegu atburðarás sem átti sér stað í kjölfarið.
Framhald þegar nógu margir eru búnir að kommenta!
Jájá, það var eins og við manninn mælt, þegar ég var búinn að setja inn síðasta póst þá birtist draslið aftur.
Jæja kannski get ég þá farið að setja inn nýja svakabloggið.
Eða á ég að bíða til jóla?
Gott fólk, það er verið að vinna í bloggsíðunni, nú er kommentakerfi komið, en þá hverfa gömul blogg. Djöfulsins drasl. Linkarnir eru líka einhversstaðar í rassgati. Helvítis drasl.
Nú eru kannski einhverjir farnir að bíða eftir nýja svakablogginu, það kemur ekki fyrr en öll helvítis síðan er komin í lag. Nýja svakabloggið er svo stórt að ég er að spá í að setja það inn í smá áföngum, hvernig líst ykkur á það?
Djöfulsins drasl.