þriðjudagur, mars 30

Keppnin já

Þvílík og önnur eins ótrúleg snilld, maður minn!
Ég hef held ég bara ekki skemmt mér svona vel lengi lengi. Undirbúningur, þrotlausar æfingar (not), tilhlökkun, spenningur, undirbúningur, gleði, ánægja og loks sjálf keppnin! Enn meiri gleði, ánægja og allsherjar grín.
Gógópíurnar, þær Gígí og Gógó komu, sáu og sigruðu, alveg magnað hvað þær að mössuðu þetta, og það án þess að æfa nokkurntímann, glæææsilegt! Ég gleymdi alveg að þakka þeim fyrir eftir keppnina og geri það því hér með, takkítakkítakk! Og reyndar á ég eftir að sjá atriðið þeirra almennilega, sé það á vídeó ef það þá kemur einhverntímann fyrir almenningssjónir.

Heh, reyndar var ég svo mikið í öðrum heimi á meðan ég var á sviðinu að ég var búinn að gleyma gógói, og þegar ég byrjaði að syngja (í viðlaginu) þá upphófust mikil fagnaðarlæti. Ég hugsaði "vááááá, er ég svona æðislegur mar!" en svo fattaði ég að þá komu gellurnar inná sviðið, ég bara sá ekkert útundan mér útaf silfurkollunni.

Og næsti viðburður er skammt undan, þ.e. trúbadorakvöld á Þinghúsinu um páskana. Ég er að spá í að vera með ef ég má, og svo var mér búið að detta í hug að Zetorar hefðu kannski gaman af því að leika lítið eitt fyrir, jah, dansi kannske, eða allavega einhverju? En bumbuzetor verður fjarri góðu gamni þetta kvöld, við hljóðblöndun á Króknum, þannig að ekkert verður úr Zeti þann daginn. Dem it ol tú hell. Þetta átti nefnilega að vera næsta skref á undan Zetors og sinfó í Laugardalshöllinni, en það frestast þá eitthvað um sinn. Kannski maður hefji bara sólóferil?

Jæja, í næsta bloggi verður væntanlega haldið áfram með mannasiðina, sjáumst þá!

mánudagur, mars 22

Meiri mannasiðir

Áfram heldur mannasiðahornið göngu sinni og í þetta sinn verður tekið á hegðun í samkvæmi og bjórdrykkju kvenna.

47. Mega menn sýna listir sínar í samkvæmum?

Já, en þó því að eins, að þeir séu beðnir um það og hafi hæfileika til þess. Það er ókurteisi og framhleypni að gera slíkt óbeðið og jafnókurteist er að kynoka sér og láta dekstra sig til þess, sem maður þó ætlar að gera. Sá, sem leikur vel á hljóðfæri, syngur vel, eða kann einhverja aðra list, sem menn hafa unun af, gefi sýnishorn hennar, ef um er beðið, án mikilla afsakana og með sem minnstum formála og endurtaki það, eða breyti til, ef allir óska þess. En menn mega ómögulega vera eins og spiladós, sem miskunnarlaust hespar af sér öll lögin sín, þegar hún hefir verið dregin upp.

84. Má kona drekka bjór á opinberum stað?

Hér á landi er bjórdrykkja, sem önnur áfengissala, með lögum af numin og fyr á dögum þótti bjórdrykkja í ýmsum löndum konum algjörlega ósamboðin á opinberum stöðum. Nú eru aðrir tímar og eru konur nú víða algjörlega leystar úr kaffi- og gosdrykkja ánauðinni, enda óeðlilegt að meina þeim svo saklausa nautn sem öldrykkju. Þó mun ýmsum enn þykja stórar ölkollur þeim ofviða og skemtilegra að sjá þær nota minni glös. Hægurinn hjá, að fylla þau oftar.

Já, eflaust anda margar konur nú léttar að vera loksins frjálst að neyta bjórs á bar.

fimmtudagur, mars 18

Mannasiðir

Ég hef komist yfir bókina "Mannasiðir" sem Þorsteinn Gíslason gaf út árið 1920. Er ætlun mín að birta valda kafla úr henni á næstu vikum, og hér kemur fyrsta lesning, vessgú.

21. Hvernig skal andlit hirða?

Hreinn og fagur litarháttur er ekki öllum gefinn, en skylt er þeim, sem hann hafa fengið að gjöf, að reyna að halda honum við. Margir eru ljótir á hörund, rauðir, blakkir, gulir eða gráir í framan, með nabba í andliti o.s.frv. Það er oft vöggugjöf og þeim til sorgar og mæðu, sem fyrir verða, einkum konum, enda leitast þær oft við að ráða bót á því með tállitum og dufti (Sminke, Pudder). En það er að eins til að gera vont verra, fara úr öskunni í eldinn.

Ljótur (og óhraustlegur) litarháttur stafar oft af einhverri veilu innifyrir, t. d. meltingarörðugleikum, sem oft geta lagast með breyttu viðurværi o. fl., og því gefst oft vel að leita læknis í þeim efnum. Stoði það ekki, þá er ekki annað til en að hlýða reglunni, er segir: “Það, sem verður að vera, viljugur skal hver bera.” Litir og duft gera ekki nema ógagn eitt, þau sýkja hörundið enn meira, með því að þau loka svitaholum þess og gera þannig sjúkt og ljótt hörundið enn sjúkara og ljótara. Auk þess er það hin mesta fásinna af konum, að þessi brögð geri þær ásjálegri og eigulegri, því að “upp komast svik um síðir”. Karlmennirnir komast fljótt á snoðir um, að þessar litfögru drósir eru málaðar manneskjur, og skortir þá sjáldan hlátur og hnýfilyrði í þeirra garð. Framan af 19. öld var þessi ósiður nær ókunnur hér á landi, en erlendis því tíðari, en er nú, sem betur fer, að leggjast þar niður, nema í leikhúsum, með því að þar ber nauðsyn til að breyta útliti manna á ýmsan hátt eftir hlutverki þeirra á leiksviðinu. Hér á landi virðist hann aftur á móti vera að færast í vöxt og er það illa farið, því að tállitir skemma hörundið, svo árangurinn verður öfugur við tilganginn.

mánudagur, mars 15

Glæsilegur sigur!

Þeir sem leið hafa átt um bloggið hans Silla vita að ekkert verður úr söngkeppni, a.m.k. verður engin samkeppni, það sýndi sig á æfingu á laugardaginn. Lagið okkar steinlá á hálftíma og verður ekkert æft frekar, næsti flutningur verður bara á generalprufunni og svo "keppnin" sjálf. Einnig munum við hirða verðlaun fyrir bestu búningana og bestu sviðsframkomuna, já og bestu hárgreiðsluna, svo eitthvað sé nefnt. Eiginlega þyrftu allar sjónvarpsstöðvarnar að vera á staðnum, og Ómega líka svo þetta fari nú ekki framhjá neinum.

En ég er með skemmtilega frásögn af broslegu atviki sem kona vinar míns lenti í um helgina.
Þannig er að kona þessi er söngkona í kvennasöngsveit sem kallast Prímadonnur. Voru þær að skemmta á samkomu hjá Lionsklúbbi í Hafnarfirði um helgina. Svifu þær syngjandi um salinn, glæsilegar konur í glæsilegum kjólum og tylltu sér á borðshorn og stöku læri.

Nú er það svo að síðustu fimmtán árin á undan höfðu verið fengnar strípikonur til þess að sýna listir sínar á þessum samkomum, og voru menn því ekki alveg vissir um hvernig þeir ættu að taka þessum glæsimeyjum. A.m.k. ekki einum herranna sem þessi vinkona mín tyllti sér á lærið á, því ekki var hún fyrr sest en herrann fór að leita að rennilásnum á baki hennar. Stóð hún því upp og stikaði burt áður en hann finndi rennilásinn á hliðinni!

Kallasvín!!

þriðjudagur, mars 9

Er ekki aldur afstæður?

Föstudaginn 26. mars fer ég í svaka gilli á Selfossi. Þá ætla að hittast tuttugu ára gagnfræðingar frá GSS. Ekki veit ég hvað ég hef þangað að gera, það bara getur ekki verið að það séu tuttugu ár frá samræmdu? Sko, ég tók samræmdu prófin 1984 þannig að þið sjáið það í hendi ykkar, þetta tuttugu ára kjaftæði stenst bara engan veginn?!

En, hvað sem því líður þá verður mikill sprengur á kútnum (mér) þá helgina, því daginn eftir þarf hann (ég) að mæta klukkan 1400 í generalprufu fyrir hina geysivinsælu söngvarakeppni á Hvammstanga. Mun það eflaust standa tæpt, en er samt nánast formsatriði, sömuleiðis að mæta í sjálfa keppnina, svo viss er ég um að við Silli munum rúlla þessu upp með okkar framlagi.

En... mikið var þetta nú leiðinlegt blogg.
Bless.

PS. Vonandi mætir Steini Spil í gillið.

sunnudagur, mars 7

Glæsilegt!

Nú er hún Sigrún mín búin að laga, ljómandi. Kann ég henni bestu þakkir fyrir.

fimmtudagur, mars 4

Nýtt komment!

Já, gott fólk, ég er búinn að fá mér comment frá Haloscan, það eiga ekki að vera takmörk á því. Endilega kíkið við og tjáið ykkur, nóg er plássið! Ég spái því að mín síða verði fyrir vikið ákaflega mikilvæg menningarmiðstöð, þar sem skoðanaskipti manna á meðal verði ástunduð af miklu kappi.

En í staðinn er ég búinn að missa linkana niður á botn, nú vantar mig ráð.

Hlakka til að sjá ykkur!

Free Web Site Counter
FreeLogs.com